Ég er stoltur fjögurra barna faðir og í minni tilveru er nákvæmlega ekkert merkilegra eða dýrmætara en börnin mín og að þau vaxi og dafni. Elsti sonur minn er 22 ára, hann er þríbólusettur og það sama má segja um þann næstelsta sem verður átján ára eftir nokkra daga.
Svo á ég tvö yngri börn, dóttur sem er nýorðin sex ára og dreng sem verður tíu ára eftir fáeinar vikur og nú er komið að því að ég þarf ásamt móður þeirra að taka afstöðu til bólusetningar sem þeim býðst gegn kórónaveirunni, því í næstu viku gefst loksins 5-11 ára börnum kostur á að fá þá vörn gegn veirunni sem okkur fullorðna fólkinu hefur boðist undanfarið ár, eða svo.
Ég er ekki sérfræðingur í öllum þeim efnum sem mynda það stórkostlega læknisfræðilega afrek sem bóluefni er. Og mér er fullkunnugt um að í einstaka tilfellum getur fólk lent í erfiðum aukaverkunum. Ég þekki sjálfur slík dæmi. Í tölfræðilegu tilliti er þó ávinningurinn af vörninni langt umfram áhættuna af þeim aukaverkunum.
Fyrir nokkru síðan fór ég með dóttur mína á heilsugæsluna til að fá nokkrar sprautur sem tilheyrðu bólusetningu barna og þar bauðst okkur líka að fá bólusetningu gegn hlaupabólu, nokkuð sem fólki á mínum aldri bauðst ekki í æsku. Ég þáði það auðvitað með þökkum og þakka fyrir þær framfarir í læknavísindunum sem koma í veg fyrir að litla dóttir mín verði alþakin útbrotum í nokkrar vikur með tilheyrandi sársauka og óþægindum. Allir foreldrar barna sem hafa fengið hlaupabólu hefðu gefið mikið fyrir að sleppa börnum sínum við þau óþægindi.
Ég samþykkti þá bólusetningu án þess að láta fara fram ítarlega efnafræðilega greiningu á bóluefninu sem átti í hlut. Ég treysti hjúkrunarfræðingnum sem var þarna til aðstoðar; heimilislækninum okkar sem mælti með þessu og hefur sinnt okkur í fjölskyldunni af samviskusemi í áraraðir og ég treysti leiðbeiningum Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis sem mælti með þessu fyrir barnið mitt. Hann mælti líka með því að bólusetja börnin mín gegn barnaveiki (diphtheria), haemofilus inflúensu af gerð b (Hib), hettusótt (parotitis epidemica, mumps), HPV (Human Papilloma Virus), kíghósta (pertussis), meningókokkum C, mislingum (morbilli, measles), mænusótt (polio), pneumókokkum eða rauðum hundum (rubella) og stífkrampa (tetanus). Þvílík undur sem læknisfræðin er, að geta forðað tugum eða hundruðum barna frá alvarlegum veikindum eða dauða árlega með svo einföldum og fyrirbyggjandi hætti!
Ég hef einstaka reynslu af heilbrigðiskerfinu þegar kemur að veikum ungum börnum mínum. Við foreldrar barna minna höfum oft gist á Barnaspítala Hringsins og notið einstakrar ummönnunar þegar barnaastmi gerði þremur þeirra lífið leitt og friðarpípan var eina leiðin sem dugði. Litla dóttir mín var ekki orðin eins árs þegar hún lá á gjörgæslu í krítískri stöðu, bæði með lungnabólgu og RS og við lágum öll á bæn til Guðs um að hún hefði það af. Það gerði hún svo sannarlega og er augasteinn okkar allra sem eigum hana; foreldra og eldri bræðra. Við höfum svipaða sögu að segja af því hvernig Þórólfur Guðnason, sem þá var barnalæknir, reyndist okkur í veikindum elsta drengsins okkar. Kærleikurinn sem frá þeim lækni stafaði gagnvart veiku barni, fæst ekki kenndur í neinum skóla. Hann kom beint frá hjartanu. Næstyngsti drengurinn minn varði fyrstu vikum ævi sinnar á vökudeildinni þar sem honum lá svo óskaplega á að koma í heiminn.
Margir foreldrar hafa svipaða sögu að segja. Við tökum hagsmuni barna okkar alltaf umfram okkar eigin og myndum aldrei stofna þeim vísvitandi í hættu. Sama má segja um kennarana, skólastjórnendur og þá sem við felum umsjón og kennslu hjá börnunum okkar í skólakerfinu alla daga.
Það er því ósmekklegra en auðvelt er að koma í orð, að varaþingmaðurinn og lögmaðurinn Arnar Þór Jónsson hafi enn einn ganginn fundið aðferð til að vekja athygli á sjálfum sér með því að senda harðort bréf á foreldra barna, skólastjórnendur, kennara og fjölmarga fleiri aðila til þess að vara þá við bólusetningum sem börnum bjóðast nú vegna COVID-19. Fyrir hönd samtaka sem kölluð eru „Ábyrgð og frelsi“ eru kennarar meðal annars spurðir hvort þeir ætli að bera ábyrgð á bólusetningu grunnskólabarna ef allt fer á versta veg.
Hér skal skorað á varaþingmanninn og lögmanninn Arnar Þór Jónsson að láta börnin okkar í friði og hætta að skapa ótta í samfélaginu og veikja tiltrú á vísindi og framfarir í læknavísindum. Það er foreldra hvers og eins barns að ákveða hvort bólusetning verður þegin. Þar verða allir að eiga við sína samvisku, taka mið af heilsufarslegu ástandi barnsins síns og ráðgjöf okkar færustu sérfræðinga og því sem aðrar þjóðir eru að gera. Þar vegna milljón sinnum þyngra hollráð Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis og sérfræðinga um allan heim, en varaþingmanns og fyrrverandi dómara sem gagnrýnir allar ráðstafanir okkar í faraldrinum en segir aldrei sjálfur hvaða aðferðum ætti frekar að beita. Þetta er maðurinn sem vill ekki að smitaðir séu í einangrun, vill að fólk hafi frelsi til að smita aðra og efast um réttmæti PCR-prófa þótt þau séu mælikvarða allra landa sem við berum okkur saman við, til að meta smit eða ekki smit. Hvernig haldið þið að ástandið í faraldrinum væri, ef við hefðum hlustað á þetta?
Gagnrýnin hugsun er af hinu góða, en hún þarf að byggjast á staðreyndum en ekki dulbúnu trúboði. Svo eru þeir sem jafnan virðast velja rangan málstað og skeyta hvorki um skömm né heiður. Heilsa barnanna okkar er það dýrmætasta sem til er; ekkert okkar vill taka áhættu í þeim efnum og það er stórt mál fyrir alla foreldra að bera hag barna sinna fyrir brjósti dag hvern. Við þurfum enga aðstoð frá varaþingmanni Sjálfstæðisflokksins í þeim efnum, sérstaklega um mál sem hann hefur enga sérþekkingu á.
Hvort ætlum við Íslendingar að fylgja ráðum Þórólfs eða Arnars Þórs? Fyrir mér liggur svarið í augum uppi.
Björn Ingi er ritstjóri Viljans.