Ástæða er til að benda unnendum vandaðra sakamálaþátta á fyrstu þáttaröðina um Dalgliesh sem nú er að finna í Sarpi og á spilara RÚV. Þetta er breskt hágæða sjónvarp eins og það gerist best og byggir á gömlum merg sem eru víðfrægar sakamálasögur P. D. James um lögregluforingjann og ljóðskáldið Adam Dalgliesh í Englandi upp úr miðjum hluta seinustu aldar.

Margir hafa lesið skáldsögurnar um Dalgliesh og rannsóknir hans á dimmum kimum mannlegrar tilveru, en fleiri af eldri kynslóðinni muna sjálfsagt eftir vinsælum sjónvarpsþáttum um lögregluforingjann með Roy Marsden í aðalhlutverki. Þeir þættir voru einnig sýndir í Ríkissjónvarpinu í gamla daga og þóttu sérstaklega vel heppnaðir.
Það eru góðar fréttir að nýjar kynslóðir sjónvarpsáhorfenda geti nú aðstoðað Dalgliesh við að leysa flókin sakamál. Fyrsta þáttaröðin þótti svo vel heppnuð að fleiri eru í farvatninu.
Hver þáttur er eins og venjuleg bíómynd að lengd og varla hægt að hugsa sér betri skemmtun í skammdeginu.