Ég mun aldrei deila henni með nokkrum manni, allra síst börnunum mínum

Sverrir Norland. Ljósmyndari: Vilhelm Gunnarsson

„Ég ætla ekki að segja þér það!“ svarar Sverrir Norland glettnislega þegar hann er beðinn að segja frá efnivið nýrrar bókar sinnar, sem ber nafnið Kletturinn.

„Ritstjórinn minn sagði að ég væri að skrifa um hluti sem ekki væri mikið fengist í skáldskap: fínu blæbrigðin í tilfinningasamböndum karlmanna. Vináttu þeirra, vangetu til að tjá sig, ólíkar tegundir af karlmennsku … Það held ég að sé nærri lagi.

En ég er líka að skrifa um annað sem mér finnst vanrækt – sambönd karlmanna við börn.

Í Klettinum er ég líka svolítið að leika mér með að nota brellur spennusögunnar. Bókin er stutt og margir hafa lesið hana í einni lotu, sagt að erfitt sé að stoppa. Það gleður mig mikið enda einmitt markmiðið. Þetta er ráðgáta – en samt er lausn gátunnar ekki aðalatriðið heldur persónurnar og sambönd þeirra.“

Hvers vegna ákvaðstu að skrifa hana?

„Ég hitti góða konu um daginn, sem var nýbúin að lesa Klettinn, og hún var svo nösk á að grípa ýmis atriði eins og næmir lesendur eru gjarnir á að gera. Hún sagði að henni hefði fundist svo gott að niðurstaðan í sögunni væri svolítið óljós. Lesandinn væri skilinn eftir með ýmsar spurningar hringsólandi í kollinum og útkoman væri ekki „politically correct“ – pólitískt kórrétt. Og það væri svo óvenjulegt nú á dögum.

Markmiðið með góðum bókmenntum er í mínum huga að sýna að heimurinn er flókinn, margvíður, torskilinn. Við erum öll bæði englar og djöflar.

Sverrir Norland.

Og þá rifjaðist upp fyrir mér að það var einmitt fyrsta fræið. Markmiðið með góðum bókmenntum er í mínum huga að sýna að heimurinn er flókinn, margvíður, torskilinn. Við erum öll bæði englar og djöflar. Bókmenntir eru að þessu leyti algjör andhverfa skoðanapistla á vefmiðlum.“

Hvernig er að taka þátt í íslenska jólabókaflóðinu? Lesa upp, fylgjast með bóksölu, lesa dóma. Er þetta keppni milli höfunda, kapphlaup?

„Hinir höfundarnir eru nú flestir bara vinir mínir og kunningjar og ég vona að þeim gangi sem allra best. Ef þeim gengur vel gengur mér líka ennþá betur.

Mér finnst gaman að hitta fólk, ekki síst lesendur. Stundum fólk sem hefur kannski lesið allt sem ég hef gefið út, hefur spurningar, þráir djúpar samræður um efni verkanna og bókmenntir og lífið almennt. Það er bara yndislegt, ótrúlega dýrmætt og forréttindi að ræða við slíkt fólk.“

Ljósmyndari: Ragnar Visage.

Sverrir kveðst alltaf að, spurður hvort meira sé í farvatningu; hann segir of langt mál að telja upp öll verkefnin sem unnið er að, en segir næstu bók vonandi tilbúna í janúar.

„Svo er ég að skrifa þrjár sjónvarpsþáttaseríur, þar af eina sem ég leik og kem fram í, og fleiri eru í þróun.

Annars hefur tónlistin mikið sótt á mig að undanförnu. Ég gaf út smáskífu nýlega sem heitir „Mér líður best illa (Kletturinn)“ og ég gerði meira að segja myndband við lagið. Það var gaman!

Fyrir jól sendi ég líka í kyrrþey frá mér lágstemmda 13 laga plötu sem heitir „Sungið á laun fyrir allan heiminn“. Þar er ég bara einn með gítarinn, eins og ég sitji heima hjá þér í stofunni.

Í byrjun næsta árs skrúfa ég svo upp hljóðstyrkinn og gef út aðra breiðskífu með hljómsveit: „Mér líður best illa“.

Og svo eru svona tíu bækur aðrar á teikniborðinu, margar langt komnar, þar af ein sem ég er að skrifa með öðrum (frábærum) höfundi.

Ég er bara alltaf að búa eitthvað til … Þetta er einhvers konar taugaveiklun. Eða lífsgleði.“

Og þessi orkumikli höfundur bætir við í léttum dúr: „Svo elda ég stundum fyrir konuna mína og leik við krakkana mína.“

Svo hefst sagan:

„Viltu segja okkur sögu?“ spyrja synir mínir mig oft.
Já, auðvitað, segi ég.
Einu sinni, endur fyrir löngu …
En þessa sögu sem hér fer á eftir? Nei. Ég mun aldrei deila
henni með nokkrum manni, allra síst börnunum mínum. Ég slæ hana inn í tölvuna til þess eins að stroka hana út aftur.

Bók dagsins: Kletturinn eftir Sverri Norland. Útgefandi: Forlagið.