SÁÁ biðja stjórnvöld að auka þegar í stað árleg framlög til sjúkrahússins á Vogi um 200 milljónir til að útrýma biðlista eftir áfengis- og vímuefnameðferð. Það kostar ekki meira að leysa bráðasta vandann.
Fíknsjúkdómar eru ein alvarlegasta heilbrigðisvá sem samfélagið stendur frammi fyrir. Enginn sjúkdómur leggur jafn margt ungt fólk að velli.
SÁÁ varð fyrir barðinu á stórfelldum niðurskurði eftir hrun en þá ákváðu stjórnvöld að hætta að greiða fyrir fæði og húsnæði sjúklinga í eftirmeðferð. Þá hafa göngudeildir verið reknar alfarið án fjármagns frá ríkinu frá árinu 2014.
Á sama tíma hefur flýtiinnlögnum frá Landsspítala, lögreglu og barnaverndarnefndum fjölgað en þær eru nú rúmlega helmingur allra innlagna. Meðan stór hluti af söfnunarfé samtakanna fer til að sinna lögboðinni heilbrigðisþjónustu er lítið svigrúm til að bæta þjónustuna, en sárlega þarf að aðskilja að fullu meðferð fullorðinna og barna og karla og kvenna.
Árið 2018 standa þjóðinni til boða 138 rúmpláss fyrir áfengis- og fíkniefnasjúklinga, það eru jafnmörg pláss og árið 1976, en síðan þá hefur þjóðinni fjölgað gríðarlega, ný og sterkari fíkniefni eru í umferð og vandinn hefur margfaldast.
600 manns eru að jafnaði á biðlista eftir meðferð á Vogi. Taka þarf við 8 á hverjum degi, í stað 6, til að útrýma þessum biðlista.
Mannslíf eru dýrmæt. 200 milljónir eru ekki mikill peningur þegar kemur að því að vernda líf. Við getum ekki samþykkt að fjöldi fólks láti lífið árlega vegna þess að hjálpin er ekki tiltæk.
Þeir sem standa að Ákalli fyrir SÁÁ skora á stjórnmálamenn allra flokka að sameinast um að bjarga sjúkrahúsinu okkar á Vogi og hjálpa þeim fagmönnum sem best til þekkja að vinna vinnuna sína.