Það var vel af sér vikið hjá Ögmundi Jónassyni, fv. ráðherra, að efna til hádegisfundar í Safnahúsinu í gær með Jeremy Corbyn, fv. leiðtoga breska verkamannaflokksins, um sósíalismann og mikilvægi hans í stjórnmálum nútímans.
Allt borgaralega þenkjandi fólk hlýtur að fagna því að slíkur maður beri út fagnaðarerindi sósíalismans, enda voru vinstri áherslur Corbyns með slíkum eindæmum í verkamannaflokknum að íhaldsflokkurinn vann hvern sigurinn á fætur öðrum. Höfðu tveir fyrrverandi formenn flokksins, þeir Tony Blair og Gordon Brown á orði, að engar líkur væru til þess að flokkurinn endurheimti fyrri styrk eða næði til fjöldafylgisins á miðju stjórnmálanna með slíkan mann við stýrið.
Frá 2021 hefur Corbyn beitt sér fyrir átaki sem hann nefnir Peace and Justice þar sem mannréttindi og friðar- og umhverfismál eru á dagskrá. Jafnframt fer hann víða og færir rök fyrir sósíalískum lausnum í stjórnmálum. Til þess hefur hann aukinn tíma þessa dagana, þar eð honum var vikið úr flokki sínum fyrir að hafa neitað að fordæma gyðingahatur og samþykkti flokkurinn nýlega sérstaklega að banna honum að bjóða sig aftur fram undir merkjum Verkamannaflokksins. Verður að heita einstakt að gripið sé til slíkra ráðstafana gagnvart manni sem hefur verið leiðtogi viðkomandi stjórnmálaflokks.
Víst er að Samfylkingin vildi sem minnst af komu Corbyns hingað til lands vita og er þó um að ræða fyrrverandi formann breska systurflokksins. En stjórnmálafólk á miðjunni og hægra megin við hana hér á landi hlýtur að vona heitt og innilega að Corbyn verði áhrifavaldur vinstri aflanna á komandi misserum.