Fimm heilbrigðisráðherrar Framsóknar í góðum gír á Akranesi

Framsóknarflokkurinn fer með ráðuneyti heilbrigðismála nú um stundir, eins og flestum er kunnugt, og er knattspyrnukempan Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Flokkurinn hefur í gegnum tíðina oft haft þetta ráðuneyti með höndum í stjórnarsamstarfi og á dögunum efndu hjónin Ingibjörg Pálmadóttir og Haraldur Sturlaugsson til kvöldverðarboðs á heimili sínu á Akranesi, þar sem hvorki fleiri né færri en fimm heilbrigðisráðherrar Framsóknarflokksins, núverandi og fyrrverandi, voru samankomnir.

Haraldur smellti af ljósmyndinni hér að ofan, en á henni eru í góðum gír frá vinstri: Jón Kristjánsson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 2001-2006, Guðmundur Bjarnason heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 1987-1991, gestgjafinn Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 1995-2001, Siv Friðleifsdóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 2006-2007 og núverandi heilbrigðisráðherra (eftir breytingar á skipulagi Stjórnarráðsins) Willum Þór Þórsson.