Að nú séu komnar upp fordæmalausar aðstæður er að verða einhver þreyttasta klisja samanlagðrar Íslandssögunnar, þótt innihald hennar sé hverju orði sannara. Eftir heimsfaraldur þar sem lögum og jafnvel mannréttindaákvæðum stjórnarskrár var kippt úr sambandi í nafni almannaheilla, erum við nú stödd í Grindavík sem hefur verið rýmd í heilu lagi og er nú mannlaus, utan vakthafandi við lokunarpósta, sem kallað er.
Fordæmalausar aðstæður skýra þessa stöðu að einhverju leyti. En það er ekkert smá mál að eignaréttur fólks sé settur til hliðar og fullorðnu sjálfráða fólki bannað að vera á heimilum sínum. Almannaheill er aftur lykilorðið; fólk „fær að koma“ í nokkrar mínútur inn í bæinn til að bjarga verðmætum. Það þarf leyfi frá opinberum aðilum til að fara heim til sín. Hversu súrrealískt er það?
Færa má rök fyrir slíkri stöðu á súrrealískum tímum, þar sem vefrit alþjóðlegra jarðfræðinga, veltir því í alvörunni upp hvort Grindavík sé að hrynja ofan í sjóinn, en þá er að minnsta kosti algjört lykilatriði að íbúar bæjarfélagsins geti treyst því að eigur þeirra séu öruggar meðan á ástandinu varir.
Trúnaðarbrestur hefur því miður orðið á því. Þyngra en tárum taki er að starfsmaður Ríkisútvarpsins, ljósmyndari kyrfilega merktur RÚV, hafi verið gripinn af eftirlitsmyndavél íbúa við það að snuðra kringum heimili, reyna að opna dyr og leita að lyklum. Þetta ber vott um ótrúlegan dómgreindarbrest og lítinn skilning á þeirri einstöku stöðu sem Grindvíkingar hafa verið settir í, án þess að nokkur hafi spurt þá álits.
Þótt neyðarástand almannavarna standi yfir í Grindavík er ástæða til að minna á að þar eru enn eigur fólks sem varðar eru af stjórnarskrá Íslands. Svæðið er ekki orðið að lögfræðilegum almenningi sem utanaðkomandi geta valsað um að vild. Þetta ætti ekki að þurfa að minna á, en virðist samt reyndin.
Grindavík kann að vera yfirgefið bæjarfélag um þessar mundir og framtíðin sannarlega ekki björt akkúrat á þessum tímapunkti, en Grindvíkingar verða að geta treyst því að verðirnir gangi vel um og virði lög og reglur. Hvaðeigna sem rýrir það traust milli Grindvíkinga og löggæsluaðila er alvarlegt mál. Að trúnaðarbestur verði, á borð við framferði starfsmanns Ríkisútvarpsins sjálfs, er gríðarlega alvarlegur atburður sem rannsaka þarf betur.
Hvað var þessi ljósmyndari búinn að reyna að opna mörg hús áður en eftirlitsmyndavél gómaði hann fyrir tilviljun? Í hvaða erindagjörðum var hann? Taldi hann að þar sem bærinn væri yfirgefinn mætti hann bara valsa um eigur fólks og misnota þannig forréttindastöðu sína íklæddur merktu öryggisvesti?
Að einkalíf fólks og eignaréttur sé þannig að engu hafður er ekkert smámál. Traust tekur langan tíma að byggja upp, en hægt er að rífa það niður á örskotsstundu. Það þurfa Almannavarnir og embætti Lögreglustjórans á Suðurnesjum að hafa hugfast. Ábyrgð þeirra er mikil og ljósmyndari RÚV var á þeirra ábyrgð. Hann var þarna í umboði almennings. Eigum við að trúa því að hann hafi áfram leyfi til að starfa á svæðinu? Vera þar sem aðrir mega ekki vera, jafnvel íbúar sem skipað hefur verið af heimilum sínum?
Og hvar eru viðbrögð Blaðamannafélagsins í þessu máli? Veit fólk þar ekki hversu mikið er undir?