Guðlaugur Þór vill friða bakgarðinn sinn

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra.

Athyglisvert erindi var lagt fram á fundi borgarráðs Reykjavíkur nýverið, en það kom frá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu og fól í sér tillögu um stækkun svæðis í Grafarvogi sem falla ætti undir friðlýsingu Grafarvogs.

Sérstaka athygli vekur að í fylgigögnum má sjá rafræn samskipti embættismanna borgarinnar og ráðuneytisins, þar sem skýrt er tekið fram að tillagan sé send „að beiðni ráðherra“. Þá segir jafnframt í útskýringu á forsendu stækkunarinnar: „Ráðherra leggur áherslu á að stækka verndarsvæðið (rauð lína) frá því sem unnið hefur verið með (gul lína) enda svæðið eitt af grænum svæðum í borginni.“

Fyrir þá sem ekki þekkja mikið til stjórnsýslunnar, er fremur óvenjulegt að sjá slík erindi tengd við persónulega ætlan ráðherra, en enn athyglisverðara er þetta fyrir þær sakir að Guðlaugur Þór Þórðarson er einmitt búsettur í einbýlishúsi neðst í Grafarvogi, nánar tiltekið við Logafoldina og hefur átt heima þar um árabil.

Því má segja að ráðherrann sé þarna beinlínis að leggja til friðun á bakgarðinum hjá sér, en til stendur einmitt að nýtt Keldnaland, stórt og fjölmennt íbúahverfi rísi þarna í nágrenninu og voru niðurstöður skipulagssamkeppni kynntar fyrir skemmstu.

Þar er meðal annars gert ráð fyrir uppbyggingu við ströndina og tengja hana nýjum og fjölmennum hverfum svo íbúar geti notið náttúrunnar og hafi aðgengi að sjó, eins og sést vel af einni mynd úr verðlaunatillögunni. Ljóst er að þessi áform myndu ekki ná fram að ganga, ef tillaga ráðherrans verður samþykkt. Og hann sleppur þá við framkvæmdir í bakgarðinum, ef svo má segja.

Ekki var tekin afstaða til tillögu ráðherra í borgarráði, en erindinu vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða.

Hins vegar bókuðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks eftirfarandi:

„Fyrirhuguð friðlýsing Grafarvogs felur í sér að grunnsævi, leirur og fjörur í voginum verði friðlýstar, auk menningarminja og skilgreinds útivistarsvæðis Grafarvogsbúa. Niðurstöður alþjóðlegrar skipulagssamkeppni um Keldnaland voru kynntar borgarstjórn í október sl. Ljóst er að í verðlaunatillögunni er skautað fram hjá mörgum atriðum, sem varða aðstæður í Grafarvogi og hagsmuni núverandi íbúa hverfisins. Því miður er fyrirhuguð friðlýsing Grafarvogs eitt þessara atriða.“