Með eldflaug undir húddinu

Viljinn reynsluakstur: Einhver óvæntasta ánægjan í akstri í langan tíma átti sér stað nýverið þegar ég fékk nýjan Wolkswagen Touareg frá Heklu til reynsluaksturs eina helgina. Jeppinn var tekinn til kostanna á Snæfellshringnum; á frábæru malbiki og þrengri malarvegum og stóðst prófið með þeim ágætum, að ég treysti mér til þess að mæla með honum við hvern sem er að velta fyrir sér betri millijeppum í sama flokki og Audi og BMW, svo dæmi séu tekin.

Það sem stendur uppúr eftir reynsluna af Touareg er hversu tæknilega öflugur hann er og öflugur raunar á alla lund. Manni finnst hreinlega eins og bíllinn sé með eldflaug undir húddinu; svo kraftmikið er viðbragðið!

Margskonar tækninýjunar minna mann á hversu stutt er í sjálfkeyrandi bíla; þessi heldur manni á réttum vegarhelmingi og leiðréttir kúrsinn ef þarf. Þetta er eiginlega hálfsjálfvirkur akstur sem getur komið sér vel í umferðarteppum og hægri umferð. Kerfið getur haldið bílnum innan akreina og sjálfkrafa virkjað inngjöf og hemla.

Margskipt LED-ljós meta sjálf stöðuna

Margt fleira mætti nefna, sem kemur manni ánægjulega á óvart. Margskipt LED ljós vekja athygli, auk hinna hefðbundnu lág- og háljósa er hægt að kveikja og slökkva á aðskildum LED-hlutum ljósanna til að velja ljósdreifingu í samræmi við aðstæður hverju sinni. 

Þegar ekið er með háljósin á greinir myndavél bíla sem koma á móti eða aka á undan. Tilteknum LED-hlutum ljósanna er stjórnað til að gera ökumanni kleift að aka alltaf með háljósin án þess að blinda aðra vegfarendur. Þegar umferðarskilti nálgast er einnig dregið niður í þeim hluta ljósanna sem lýsa skiltið upp til að koma í veg fyrir að endurskin þess blindi ökumanninn. Þetta var gaman að prófa að kvöldi þegar skyggja fór og eins í Hvalfjarðargöngunum.

Fyrirbyggjandi farþegavörnin er aukabúnaður sem getur gripið inn í þegar bíllinn lendir í viðsjárverðum aðstæðum. Kerfið notar upplýsingar frá mismunandi kerfum bílsins og akstursaðstoðarkerfum og skynjurum þeirra til að greina slíkar aðstæður. Þegar hætta greinist er gripið til ýmissa öryggisráðstafana í samræmi við aðstæður: Öryggisbelti í framsætum eru hert, sætisbök eru færð í upprétta stöðu og hurðum, gluggum og þakglugga er lokað. Ef hætta er á að ökutæki aki aftan á bílinn blikka viðvörunarljós að aftan hratt.

Touareg kemur í mismunandi útfærslum og verðflokkum.

Rýmið innan bílsins er til fyrirmyndar, það er nóg pláss fyrir farþega aftur í og þeir sjá vel út um gluggann og skottið er rúmt með skemmtilegum fítusum, þar er til dæmis takki sem kallar fram dráttarkrókinn og felur hann þess á milli.

Í flokki sambærilegra bíla telst Touareg væntanlega vera á hagstæðu verði og verðið verður enn hagstæðara þegar hugað er að því hversu tæknilega fullkominn og skemmtilegur hann er í akstri.

Það er kannski ekki alltaf heppilegt að hafa eldflaug undir húddinu á íslenskum vegum, en maður getur ímyndað sér að það komi sér vel á þýskum autobahn. En kostirnir við viðbragðið eru gríðarlegir og gera það að verkum, að hreint ánægjuefni er að setjast undir stýri og aka af stað.

Það er ekki svo lítið atriði, þegar allt kemur til alls.