Nei, hættu nú alveg

Við Íslendingar erum orðnir ýmsu vanir þegar kemur að fregnum af ákvörðunum Útlendingastofnunar. Einkum hafa þessar fréttir verið áberandi í seinni tíð eftir að gríðarlegur fjöldi hælisleitenda leitaði hingað til lands, sumir frá ömurlegum aðstæðum í stríðshrjáðum löndum en aðrir í leit að betra lífi frá ríkjum sem skilgreind eru örugg. Fyrir vikið hafa orðið til biðlistar með langri málsmeðferð og stórum hópum fólks; börnum og fullorðnum sem búa hér mánuðum, misserum og jafnvel árum saman meðan unnið er í þeirra málum og niðurstaðan á endanum oftast sú að neikvætt svar fæst og brottvísun af landinu blasir við.

Margt í ákvörðunum Útlendingastofnunar hefur sætt mikilli gagnrýni og vakið furðu, enda þótt starfsfólkið þar sé eflaust fyrst og fremst að vinna vinnuna sína og fara að landslögum. Ef fólk telur þau lög ekki réttlát, þarf að breyta þeim á Alþingi — sem er hinn rétti vettvangur.

En svo koma aftur og aftur upp dæmi þar sem heilbrigð skynsemi virðist hafa týnst einhvers staðar á leiðinni og niðurstaðan verður einhver óskapnaður sem er öllu fólki óskiljanlegur og getur ekki hafa verið tilgangur löggjafans, hvað þá þjóðarvilji.

Dæmi um það er sagan hennar Momo Hayashi frá Japan, sem hefur búið hér í fjögur ár og lært íslensku við Háskóla Íslands. Hún talar orðið málið, hefur sest hér að, unnið við góðan orðstýr og stofnað fyrirtæki en fékk nýlega þær fregnir að hún eigi að yfirgefa landið innan þrjátíu daga.

Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans.

Fyrirgefðu, en hvaða vitleysa er þetta eiginlega?

Af hverju má Momo ekki setjast hér að? Er hún ekki einmitt fullkomið dæmi um manneskju sem lönd vilja fá til sín? Sækir sér menntun, lærir tungumálið, sækir vinnu og býr til störf með eigin fyrirtæki. Og tengir Ísland við fjölmennt land með ómetanlegri tungumálakunnáttu sinni.

Hvernig í ósköpunum er hægt að réttlæta brottvísun þessarar konu?

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir dómsmálaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra verða báðar að hlutast til um að stoppa strax þessa vitleysu. Annars er réttlætiskennd almenning gagnvart Útlendingastofnun endanlega fokin út í veður og vind.

Vertu velkomin hingað til lands kæra Momo og megir þú dvelja hér sem lengst.

———

bjorningi@viljinn.is