Viljinn reynsluakstur: Hvorki þarf að kynna Totoyta né Land Cruiser sérstaklega fyrir Íslendingum; fjöldi bifreiða og jeppa af þessari tegund á vegunum segir allt um álit okkar Íslendinga á þessu japanska merki sem fyrir löngu er orðið tákn um gæði, góða endingu og lága bilanatíðni og ekki síst: mikið og stöðugt endursölugildi.
Ég hef margoft keyrt Land Cruiser jeppa gegnum tíðina, en verð að viðurkenna að tilfinningin sem greip mig undanfarnar vikur í reynsluakstri á nýja 150 Luxury jeppanum var mögnuð. Þetta er einfaldlega jeppi af annarri vídd, hreint stórkostlegt að keyra hann á vegum úti og finna sannkallaða öryggistilfinningu þegar maður nánast svífur um á malbikinu.
Land Cruiserinn er enn þessi sígildi og trausti jeppi sem fer allra sinna ferða og hentar jafn vel í innanbæjartraffík og ferðalög, en margvíslegur tæknibúnaður sem hefur bæst við að undanförnu vekur aðdáun. Hann er búinn 8“ margmiðlunarskjá sem sýnir margar myndir frá nokkrum myndavélum bílsins. Á meðal stjórnbúnaðar fyrir akstur í torfærum er torfæruskjár með mynd frá myndavél undir bíl og torfæruvali ásamt skriðstýringu sem gerir manni kleift að aka við mjög krefjandi aðstæður. Þar kemur einnig til leiks sérstaklega öflugt fjöðrunarkerfi og viðvörunarljós í speglum þegar bíll er á blindu hliðinni.
Fleira spennandi og skemmtilegt mætti nefna. Börnin aftur í nutu þess að horfa á teiknimyndir í afþreyingarkerfinu aftur í og ekki síður sló kæliskápurinn milli framsætanna í gegn á langri leið.
Ný Torsen-tregðulæsing að aftan eykur stöðugleika og grip á ójöfnum vegum og hálu undirlagi. Sjálfvirkt háljósakerfi Toyota Safety Sense er hannað með það fyrir augum að bæta skyggni allra vegfarenda þegar ekið er í myrkri. Myndavél greinir ljós frá ökutækjum sem eru fram undan og fyrir framan og fylgist einnig með birtustigi veglýsingar. Kerfið skiptir sjálfkrafa milli háljósa og lágljósa, sem eykur öryggi þegar ekið er í myrkri og gefur manni þá tilfinningu að bíllinn sé að stórum hluta sjálfur við stjórnvölinn.
Sú tilfinning eykst bara þegar notast er við cruise-control á lengri leiðum. Radarinn fylgist nákvæmlega með aðsteðjandi umferð og lækkar hraðann þegar bíll er í tiltekinni fjarlægð fyrir framan, en gefur í ef maður skiptir yfir á hina akreinina til að taka framúr. Á leið frá Akureyri stöðvaði næsti bíll fyrir framan mig snögglega með stóran tengivagn til að taka óvænta beygju til hægri og ég fann hvernig jeppinn tók öll völd; hægði ferðina án nokkurra vandkvæða og gaf svo aftur í þegar hinn bíllinn hafði beygt frá. Svona atvik fyllir mann öryggistilfinningu sem ekki er lítið atriði í umferðinni eins og hún er þessa dagana á vegum úti, en segir manni líka hve stutt er í reynd í sjálfkeyrandi bíla.
Nýi Land Cruiserinn er aukinheldur sérlega rúmgóður og skiptir engu hvort maður er í framsætunum eða aftur í; þar er líka fullkomin miðstöð og sætishitarar og annar útbúnaður sem farþegar kunna vitaskuld vel að meta.
Í stuttu máli: Land Cruiser er traustur sem fyrr, en hefur tekið nokkrum stakkaskiptum þegar kemur að tæknibúnaði og útliti og er þar kominn í allra fremstu röð. Á langri leið er unun að keyra þennan bíl og fjölskyldan nýtur sín öll í honum og maður öðlast kærkomna öryggistilfinningu. Í reynd er ekki hægt að mæla nógsamlega með honum. Verð er frá 8.150.000 til 14.880.000 kr. enda er úrvalið á búnaði í þennan bíl mikið. Kaupendahópurinn enda mjög breiður og þarfirnar ólíkar. En maður skilur vel, eftir að hafa ekið um á þessum bíl í nokkrar vikur, hvers vegna eigendur Land Cruiser taka jafn oft þá ákvörðun að skipta gömlum yfir í nýjan sömu tegundar og raun ber vitni. Það er engin tilviljun.
Björn Ingi Hrafnsson / bjorningi@viljinn.is