Skýring dagsins: Hver er munurinn á vopnahléi og mannúðarhléi?

Athygli hefur vakið að tvö hugtök eru nú til umræðu kringum hamfarirnar fyrir botni Miðjarðarhafs eftir hryðjuverk Hamas í Ísrael og viðbrögð Ísraelshers við þeim, sem eru loftárásir á Gaza-svæðið og undirbúningur að hreinni landtöku svæðisins, ef að líkum lætur.

Annars vegar kalla margir Palestínumenn, Sameinuðu þjóðirnar og ýmis önnur ríki (einkum Arabaþjóðir) eftir hefðbundnu vopnahléi en Bandaríkin og mörg önnur Vesturlönd, þeirra á meðal Ísland, hafa talað fyrir því sem kallað er mannúðarhlé.

En hver er eiginlega munurinn?

Hefðbundin vopnahlé eru fyrirfram ákveðin, oftast nákvæmlega tímasett og geta varað í einhverjar vikur, mánuði eða jafnvel lengur.

En mannúðarhlé taka frekar til mun styttri tíma, jafnvel aðeins örfárra klukkustunda, og eru einkum hugsuð til þess að koma að vistum, forða slösuðum í skjól og þeim yfir landamæri og burt sem þangað ætla.

Bandaríkin, Bretland, Evrópusambandið og Norðurlandaþjóðirnar (þar með talið Ísland) segja að hefðbundið vopnahlé geti gagnast hryðjuverkastarfsemi Hamas til þess að ná vopnum sínum og undirbúa varnir sínar og frekari árásir. Ennfremur er talið að það gæti orðið til þess að erfiðara reynist en ella að frelsa fjölmarga ísraelska gísla sem eru enn í haldi samtakanna og í felum á Gaza eftir hryðjuverkin í fyrstu viku október sl.

Vopnahlé eru oftast sett á til lengri tíma í því skyni að ná deiluaðilum að samningaborðinu og binda enda á stríðsátök. Flestar þjóðir hafa viðurkennt sjálfsvarnarrétt Ísraelsmanna, en ítrekað mikilvægi þess að þeir gangi ekki of langt í viðbrögðum sínum og gangi ekki gegn alþjóðalögum.