Beinbrunasótt (e. dengue fever) verður landlægur smitsjúkdómur á svæðum í Evrópu, Bandaríkjunum og Afríku á næstu árum vegna afleiðinga hnattrænnar hlýnunar og fólksflutninga úr sveit í borg, að sögn yfirlæknis Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar WHO, Jeremy Farrar.
Farrar segir í viðtali við Reuters-fréttastofuna, sem fjölmiðlar víða um heim hafa greint frá í dag, segir að á næsta áratug muni beinbrunsótt breiðast hratt út með moskítóflugum, enda geti þær með hækkandi hita þrifist á stöðum þar sem það var áður ekki mögulegt.
„Við þurfum að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir og búa lönd undir aukin vandræði vegna þessa, ekki síst í mjög fjölmennum borgum á þessum svæðum,“ sagði yfirlæknirinn ennfremur.
Beinbrunasótt hefur hingað til einkum verið landlæg í Suðvestur Asíu og Rómönsku Ameríku. Talið er að um 20 þúsund manns látist árlega af völdum hennar, en útbreiðslan hefur aukist hratt undanfarin ár. Í Bangladesh ríkir sannkallaður faraldur um þessar mundir og þar hafa ríflega 200 þúsund manns veikst það sem af er ári og þúsund manns látist af völdum sjúkdómsins.
Í Evrópu greindust fleiri tilfelli beinbrunasóttar í fyrra en allan áratuginn samanlagt þar á undan. Sama hefur verið uppi á teningnum í Flórída og Texas í Bandaríkjunum.
Hvað er beinbrunasótt?
Á vef landlæknis segir að af og til berist fregnir af faröldrum beinbrunasóttar í Suður- og Mið-Ameríku, Afríku, Miðausturlöndum, Asíu, Ástralíu og Vestur-Kyrrrahafseyjum. Stöku tilfelli beinbrunasóttar greinist jafnframt á Norðurlöndum hjá ferðamönnum sem snúa heim eftir dvöl á svæðum þar sem beinbrunasótt er landlæg.
Smitefnið er veira sem tilheyrir Flavi-veirum, vitað er um fjórar sermisgerðir veirunnar (Dengue 1, 2, 3 og 4). Allar sermisgerðirnar geta valdið blæðandi beinbrunasótt, en sermisgerð 2 orsakar flest tilfellin. Sýking með einni sermisgerð gefur ævilangt ónæmi gegn samsvarandi sermisgerð en hún ver ekki gegn hinum. Smit berst með biti moskítóflugna af Aedes-ætt, ýmist Aedes egypti eða Aedes albopictus. Veiran berst í fluguna þegar hún sýgur blóð úr sýktum öpum eða mönnum. Beinbrunasótt smitar ekki manna á milli. Meðgöngutími er 2–14 dagar, í flestum tilfellum 4–7 dagar.
Helstu einkenni beinbrunahitasóttar eru höfuðverkur, bein- og liðverkir og upphleypt (maculopapular) útbrot koma eftir nokkra daga. Sjúkdómurinn gengur oftast yfir og sjúklingurinn nær sér að fullu. Stundum er vægur hiti eina einkennið og einnig getur sýkingin verið án einkenna.
Blæðandi beinbrunasótt er alvarlegri sjúkdómsmynd. Helstu einkenni eru hár hiti, blæðingar í slímhúðum og húð og oft fylgir lifrarstækkun. Í alvarlegum tilfellum getur orðið blóþrýstingsfall vegna taps á blóðvökva út í vefi. Það er hættulegt ástand sem getur leitt til dauða í 40–50% tilfella ef það ekki er meðhöndlað. Við fullnægjandi vökvagjöf fer dánartíðni niður í 1–2%, að því er segir frá á undirvef sóttvarnarlæknis á vef landlæknis.
Þar segir einnig að klínísk sjúkdómsmynd fari eftir aldri og ónæmissvörun viðkomandi ásamt sermisgerð sem veldur sýkingunni. Svo virðist sem fyrri sýking með einni sermisgerð auki líkur á slæmum einkennum við sýkingu með annarri sermisgerð. Börn og unglingar sem búa á svæðum þar sem beinbrunasótt er landlæg eru í mestri hættu á alvarlegum sýkingum.