Gömul frétt og ný

Samfylkingarfólk vill sennilega á lokadögum kosningabaráttunnar að kjósendur setji sem fyrst svonefnd Þórðarmál aftur fyrir sig og beini fremur athygli sinni að stefnumálum og áhrifum þeirra á framtíðina. Áhugavert er þó að sjá, hversu margir í þeim flokki vilja kenna Stefáni Einari í Spursmálum um ófarir Þórðar Snæs Júlíussonar, en benda um leið í hneykslunartóni á endurkomu svonefndra Klaustursmanna í stjórnmálin fyrir Miðflokkinn.

Án þess að fara inn í þá umræðu efnislega er risastór munur á þessum málum sem fer auðvitað ekki framhjá fréttahaukum, það bara hentar ekki að þessu sinni að skoða allt samhengið.

Klausturmálið er „gömul frétt.” Þegar það kom upp fyrir 6-7 árum var ekki meira um annað fjallað í fjölmiðlum. Þjóðfélagið fór nánast af hjörunum; leiklestur var í sjálfu Borgarleikhúsinu og tilraunir gerðar til réttarhalda gegnum siðanefnd á þingi yfir pólitískum andstæðingum. Þeir sem að málinu komu báðust afsökunar, þremur árum síðar fóru fram kosningar þar sem kjósendum gafst kostur á að gera málið upp og flokkurinn tapaði um helmingi fylgis síns. Þeir sem að ætla að grundvalla afstöðu sína á Klausturmálum eru einfaldlega löngu búnir að því, auk þess sem Miðflokkurinn hefur sérstaklega gefið út að hann aðhyllist ekki svonefnda slaufunarstefnu (e. cancel culture).

Glæný afhjúpun

Þótt bloggskrif ÞSJ undir dulnefni á opinbera vefsíðu um nokkurra ára skeið séu vissulega gömul, þá var sú afhjúpun að það hafi verið hann sjálfur sem skrifaði, glæný frétt, sem aldrei hefur verið fjallað um áður og kjósendur ekki getað tekið afstöðu til. Ástæða þess er m.a. sú að þegar málið kom til opinberrar umræðu vegna kæru Rannveigar Rist til siðanefndar BÍ, þá sagði Þórður Snær einfaldlega ósatt um sína aðkomu og kannaðist ekki við að eiga neina aðild að þessum skrifum. Þau ósannindi hittu hann illa fyrir núna, því ef hann hefði gengist við skrifunum á sínum tíma, hefði aldrei komið til neinnar afhjúpunar nú og lítið þýtt í pólitískum slag að rifja þau gömlu skrif upp.

Þetta er gömul saga og ný. Það var ekki innbrotið í Watergate sem felldi Nixon, segulbandsupptökur eða sóðalegt tal forsetans á þeim, heldur sú staðreynd að hann hafði sagt ósatt! Á ensku er til um þetta fræg setning: It´s not the crime, it´s the cover up!

Aukinheldur þarf ekki að blaða lengi í bók bókanna til að finna dæmisögur og texta um hættuna og hræsnina sem felst í því að dæma sífellt annað fólk og setja sig almennt á háan hest. Fallið getur nefnilega orðið ansi hátt, eins og rækilega hefur komið í ljós.

Og sá yðar sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum…