Mjög merkileg staða er að teiknast upp í íslenskum stjórnmálum með stórsókn Viðreisnar í skoðanakönnunum síðustu vikur. Í nýrri könnun Maskínu, sem birtist í dag, er ekki lengur marktækur munur á Samfylkingu og Viðreisn; fyrrnefndi flokkurinn fengi 20,1% fylgi og Viðreisn 19.9%.
Þróun undanfarinna vikna hefur sýnt Samfylkinguna dala nokkuð frá því hún toppaði fyrr á árinu með fylgi í júní upp á ríflega 27% hjá Maskínu, meðan Viðreisn hefur hægt og þétt bætt við sig fylgi –– Viðreisn mældist t.d. með 10% fylgi hjá Maskínu í júní sl. Ef fram heldur sem horfir, má því allt eins búast við að næstu kannanir sýni Viðreisn sem stærsta stjórnmálaflokk landsins, sem yrðu ekki lítil tíðindi.
Athygli vekur í könnun Maskínu að Sjálfstæðisflokkurinn er kominn í þriðja sætið á kostnað Miðflokksins, sem dalar um ríflega tvö prósentustig milli kannana. Sókn Sósíalistaflokksins á vinstri kantinum er staðfest með 6,3% fylgi en VG er enn utan þings með aðeins 3,4%. Píratar detta í þessari könnun norðan megin við fimm prósenta lágmarkið og næðu þar af leiðandi mönnum á þing.
Þess má síðan geta, að í Grjótkasti Björns Inga á Viljanum á helstu hlaðvarpsveitum mætast á morgun þær Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar.