Neytendur og samkeppnin í fluginu

Kallinn hefur um lítið annað að hugsa en kosningar þessa dagana og fátt er fyrirferðarmeira í umræðunni en efnahagsmálin. Munum sem er að lækkun vaxta um einungis eitt prósentustig skilar heimili með 40 milljón króna húsnæðislán 33 þúsund krónum á mánuði í vasann, sem er ígildi 57 þúsund króna launahækkunar.

Spurningin sem brennur á flestra vörum er sú hvernig stjórnmálaflokkarnir ætli að beita sér til þess að íslensk heimili þurfi ekki að búa við kjaraskerðingar á borð við háa vexti og dýra matarkörfu.

Um það hafa stjórnmálamennirnir eitt og annað að segja.

Eitt sem Kallinum hefur þótt fara minna fyrir í almennri umræðu um neytendamál en efni standa til er staða flugfélagsins Play. Fjölmiðlar virðast eingöngu segja neikvæðar fréttir af flugfélaginu, sem þó býr við sömu upplýsingaskyldu um raunverulega stöðu og horfur og önnur félög sem eru skráð á markað. Þess fyrir utan hafa ævintýri eldhuga sem áður hafa stofnað flugfélög hér á landi – líkt og forverarnir Wow og Iceland Express eru gott dæmi um – orðið til þess að girt hefur verið fyrir allan hókus pókus í flugrekstri.

Samgöngustofa fylgist grannt með stöðunni og hikar ekki við að svipta þá flugrekstrarleyfi sem nálgast nauðlendingu. Play er ekki þar.

Samkeppni meðan samkeppni nýtur við

Þau hjá Play standa samt í ströngu um þessar mundir við endurskipulagningu. Félagið hefur sótt um flugrekstrarleyfi á Möltu og ætlar að draga verulega úr umsvifum tengiflugs á milli Norður-Ameríku og Evrópu. Fókusinn verður settur á sólarlandaáfangastaði frá Íslandi. Eftir breytingarnar verða um sex til sjö vélar staðsettar á Íslandi á íslenska flugrekstrarleyfinu og þrjár til fjórar erlendis.

Þetta hefur óumflýjanlega þau áhrif að Icelandair situr eitt flugfélaga að mörgum áfangastöðum sem landsmenn hafa hug á að heimsækja. Verð hafa rokið upp. Verðlagning Icelandair – eins og við höfum áður séð – stenst keppinautnum snúning á meðan samkeppnin er sannarlega til staðar en ekki stundinni lengur.

Það blasir við að risastórt hagsmunamál er fyrir Íslendinga að Play lifi af. Ekkert gefur annað til kynna en að um sé að ræða tímabundna rekstrarörðugleika sem mun fleiri skráð félög ganga reglulega í gegnum. Þeir sem vilja tryggja sig algjörlega, greiða fyrir ferðina með kreditkortinu sínu.

Hagsmunir allra Íslendinga felast í öflugri samkeppni og fjölbreyttum valkostum í fluginu sem og annars staðar. Það ræður miklu um það hversu margar krónur verða eftir í heimilisbókhaldi venjulegra fjölskyldna og munar um minna.