Dagur er umdeildur en hann er líka mjög vinsæll

Dagur B. Eggertsson fv borgarstjóri.

Þetta er býsna sérstök kosningabarátta fyrir margra hluta sakir, en þeir sem þekkja eitthvað fyrir sér í pólitík eru svolítið undrandi á áherslum stjórnmálaflokkanna í auglýsingum og kynningarherferðum.

Í öðru sæti á eftir Kristrúnu Frostadóttur í öðru Reykjavíkurkjördæmanna er þannig Dagur B. Eggertsson, fv. borgarstjóri, en hann hefur lítið sem ekkert sést í kynningarefni á vegum flokksins.

Þar virðist Samfylkingarfólk óþarflega lítið í sér gagnvart áróðri pólitískra andstæðinga, því þótt Dagur B. Eggertsson sé sannarlega umdeildur stjórnmálaforingi eftir langan feril, er hann sannarlega mjög vinsæll um leið. Hvers vegna horfir flokkurinn ekki til þess, nú þegar ljóst er að hvert atkvæði skiptir máli á lokasprettinum?

Á grafinu hér að ofan, sem Kolbeinn Stefánsson birti nýverið, sést vel hvernig Samfylkingarinnar hefur þróast undir forystu Dags í borginni. Hafa ber í huga að eftir því sem flokkar eru lengur í meirihluta/ríkisstjórn, verður erfiðara að halda í fylgið, en í samanburði við hrakfarir ríkisstjórnarflokkanna í skoðanakönnunum nú, er ljóst að Dagur og Samfylkingin mega vel við una.

Þetta sést enn betur þegar yfirstandandi kjörtímabil er skoðað í borgarpólitíkinni. Meirihlutinn í borginni hefur misst samanlagt fylgi úr 56% í 54% skv ágúst-Maskínu (sem er nýjasta mælingin). Þá hafði ríkisstjórnin misst helming síns fylgis frá kosningum – úr ca 54% í 26% ágúst. Og staðan hefur meira að segja bara versnað eftir það.

Og þegar fylgi Samfylkingarinnar var skoðað sérstaklega, kom í ljós að flokkurinn hafði í borginni hækkað sig um 6% frá kosningum (eftir nær 15 ár í meirihluta) og mældist með 26% fylgi í ágúst sl.

Það er auðvitað enginn flokkur á landsvísu að mælast nálægt því nú.

Þetta eru nú allar óvinsældir hins umdeilda Dags B. Eggertssonar…