Seðlabankinn lækkar vexti í 3,50% (í Evrópu)

Eftir Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur:

Seðlabanki Evrópu lækkaði stýrivexti fyrir nokkrum dögum. 

Þeir eru nú 3,50%. Á meðan hefur Seðlabanki Íslands hækkað stýrivexti fjórtán sinnum í röð. Stýrivextir hafa nú verið 9,25% í heilt ár. 

Vaxtakostnaður heimila jókst um meira en 30 milljarða í fyrra. 

Svar ríkisstjórnarinnar er að hávaxtastig sé bara í eðli íslenska kerfisins sem sé lítið og sveiflukennt – en að nú horfi allt til betri vegar. En á sama tíma birtast fréttir af auknum vanskilum heimila og fjölskyldna sem og fyrirtækja.

Lykilspurningin

En hvers vegna er lögmál að vextir á lánum eru alltaf svona háir á Íslandi?

Það þarf að hafa pólitískan metnað til að ræða þessa lykilspurningu. 

Hvers vegna eru vextir á Íslandi langtum hærri en í nágrannalöndunum? Ekki bara núna heldur alltaf. 

Viðreisn hefur talað lengi um þau vandamál sem fylgja háum vöxtum á Íslandi. Við höfum líka bent á mikla skattbyrði venjulegs fólks en um önnur hver króna sem hagkerfið skapar fer í skatta eða í lífeyrissjóði. Þetta er með því allra hæsta sem þekkist í öllum alþjóðlegum samanburði. Um 70% álagðra skatta og gjalda eru síðan borin af þriðjungi þjóðarinnar. 

Þetta er millistéttin á Íslandi og þetta eru fyrirtækin á Íslandi. 

Svo hár skattur á auðvitað að geta skilað opinberri þjónustu sem stenst samanburð við kerfi annars staðar á Norðurlöndum. Það er þó ekki staðan eins og sést á innviðum okkar og þjónustu við fólk. 

Óöruggur gjaldmiðill kostar

Ástæðan fyrir þessu er ævintýralega hár vaxtakostnaður íslenska ríkisins, sem stafar ekki síst af íslensku krónunni. 

Það eru nefnilega ekki bara heimili og fyrirtæki sem eru að sligast undan vaxtakostnaði. Það sama á við um ríkissjóð. Fjórði stærsti útgjaldaliður ríkisins er vaxtakostnaður. Samt er Ísland ríki sem skuldar ekkert brjálæðislega mikið í alþjóðlegum samanburði. Lán íslenska ríkisins eru bara fáránlega dýr. Ein af alvarlegum aukaverkunum lítils gjaldmiðils er nefnilega að af honum hlýst meiri kostnaður en af stærri gjaldmiðli. 

Þess vegna verður að ræða kostnaðinn af skuldum, þó flestir stjórnmálaflokkar forðist þetta samtal. 

Má ekkert gera fyrir millistéttina?

Þótt kaupmáttur launa sé t.d. almennt góður á Íslandi í alþjóðlegum samanburði hefur hann sveiflast fjórum sinnum meira á Íslandi en í hinum OECD-löndunum bara frá aldamótum. Þessar sveiflur hafa bitnað harðast á ungu fólki sem færir fjármagn til eldri kynslóðanna í gegnum fasteignamarkaðinn. Næstum öllum kostnaði af verðbólgu og vaxtahækkunum hefur verið velt yfir á ungt fólk og barnafjölskyldur – og minni fyrirtæki sem fá nú á sig skattahækkun. Fólk sem þráir að losna af leigumarkaði getur það ekki. 

Tillögur ríkisstjórnarinnar um að fjarlægja núna það úrræði að fólk fái að nýta séreignasparnað til að greiða inn á húsnæðislán er fáránleg í þessu ljósi. Það er harkaleg og óþörf aðgerð gagnvart heimilunum.

Flestu ungu fólki er núna algjörlega ómögulegt að kaupa íbúð ef pabbi og mamma geta ekki hjálpað. Ungt fólk á Íslandi á að geta eignast íbúð án þess að kaupa hana með foreldrum sínum og sama hvernig bakland þeirra er. 

Á meðan ætlun stjórnvalda er ekki að gera neitt til að taka á rót vandans sem  er einfaldlega óöruggur gjaldmiðill þá gengur ekki upp að ætla að banna heimilum að bjarga sér sjálf og fái að nýta séreignarsparnað til að greiða inn á húsnæðislán. 

Höfundur er þingmaður Viðreisnar.