Spilling og Gagnsæi

Brynjar Níelsson fv alþingismaður.

Eftir Brynjar Níelsson:

Til er fyrirbæri sem heitir Íslandsdeild Transparency International, sem kallar sig Gagnsæi og er markmiðið að berjast gegn spillingu. Góð og gild markmið og öll þurfum við að vera vakandi gagnvart hvers konar spillingu og óheiðarleika. Þar eru fremstu koppar í búri nú um stundir, Halldór Auðar Svansson, Guðrún Johnsen og Árni Múli Jónasson, allt fólk sem hefur látið til sín taka í pólitískri umræðu líðandi stundir og þekktir andstæðingar stjórnarflokkanna.

Á heimasíðu þessa félags segir að það mæli spillingu í opinbera geiranum sem byggist á áliti sérfræðinga og aðila úr viðskiptalífinu. Mælingin byggist sem sagt að huglægri afstöðu viðmælanda hverju sinni. Samkvæmt mælingum „sérfræðinganna“ og annarra álitsgjafa hefur spillingarvísitala Íslands lækkað jafn og þétt síðustu ár, sem merkir að spillingin eykst, og tekur nokkra dýfu núna á kosningaári. Þvílík tilviljun! Og í öllu þessu Gagnsæi eru engar upplýsingar að hafa um hverjir eru viðmælendur eða hvernig komist að þeirri niðurstöðu að spillingin eykst. Sjálfum finnst mér líklegast að þessi niðurstaða byggist á áliti félagsmanna sjálfra auk viðtala við aðra pólitískra samherja, líklega Þorvald Gylfason og Þórhildi Sunnu, Rósu Björk og aðra viðlíka „sérfræðinga“ í spillingu.

Ekki þurfti að bíða lengi eftir upphlaupum stjórnarandstæðingar á þinginu við þessari niðurstöðu sérfræðinganna á vegum Gagnsæis. Varaþingmaður Pírata var með böggum hildar og treysti sér vart úr húsi vegna kvíða yfir spillingunni. Sjálfsagt ekkert grín að fá spillingarkvíða ofan í allan loftslags- og kórónukvíðann. Helsta málpípa Samfylkingarinnar var ekki lengi að bregðast við og auðvitað er öll þessi spilling á vegum stjórnarflokkanna.

Þeir sem kenna sig við hin og þessi afbrigði sósíalisma, í daglegu tali kallaðir vinstri menn, hafa alla tíð trúað því að hugmyndafræði þeirra sé vísindalegur sannleikur. Því eru þeir duglegir að stofna hvers kyns félög og samtök í pólitískum tilgangi sem sveipuð eru skikkju fræða og vísinda. Þeir stofna því reglulega ýmis félög um mannréttindi, frið og gegn spillingu þrátt fyrir að þessi hugtök samræmist illa hugmyndafræði þeirra.

Vinnubrögð Gagnsæis verða seint talin fræðileg eða mikil vísindi.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.