Átakanlegt sumarveður og blikur á lofti

Eftir hefðbundið hlé í júlí frá pólitískum skrifum, fer Viljinn aftur af stað nú í ágústbyrjun. Fyrst um sinn má búast við að hraðinn taki mið af íslensku sumarveðri og afköstum ríkisstjórnarinnar, verði semsé í nokkrum hægagangi, en eftir því sem líður á ágústmánuð má búast við því að allt fari í eðlilegt horf.

Staðan er enda snúin í pólitíkinni; enn lafir óvinsæl ríkisstjórn sem fátt óttast meira en kosningar en innan stjórnarflokkanna verður krafan um breytingar sífellt háværari af augljósum ástæðum.

Hið átakanlega lélega sumarveður í ár hefur ekki hjálpað ríkisstjórninni nema síður sé. Með hverri haustlægðinni um hásumar styttist þráðurinn í landsmönnum. Hér á landi er ekki aðeins innviðaskuld, heldur skulda máttarvöldin okkur líka ófáar sólarstundir og regnið er orðið fyrir löngu nógu gott fyrir gróðurinn. Dýrtíðin hjálpar heldur ekki til, bókstaflega allt hefur hækkað í verði og í mörgum atvinnugreinum eru blikur á lofti. Þá er ótalin náttúran, sem enn minnir hressilega á sig á Mýrdalssandi og á Reykjanesi.

Á alþjóðavettvangi er staðan hreint og beint ískyggileg og þeim fjölgar óðum sem spá því að nýtt alheimsstríð sé framundan. Sífellt fjölgar átakasvæðum í heiminum, enginn virðist taka forystu fyrir þeim öflum sem tala fyrir friði og sáttum og í Bandaríkjunum bíða menn með öndina í hálsinum eftir úrslitum forsetakosninga næsta vetur.

Það verður því nóg að fjalla um á komandi mánuðum og misserum. Rigningartíðin gaf ritstjóra færi á að lesa reiðinnar býsn um alþjóðamál og þróun í þeim efnum og verður mörgu af þeim fróðleik deilt með lesendum áður en langt um líður.