Hvað er líklegt að gerist næst? Fimm punktar um stöðu og horfur

Það var ekkert sérstaklega létt yfir þrenningunni sem kom fram á upplýsingafundi Almannavarna í dag til að flytja landsmönnum boð um að gæta að sóttvörnum og rifja allt upp sem í heiðri var haft í mars og apríl þegar mesta veirufárið gekk yfir landið.

Hér eru fimm punktar um stöðuna frá mér og það sem ég tel líklegast að gerist næst, ef einhver skyldi hafa áhuga:

Það voru mistök hjá Almannavörnum og þríeykinu að tilkynna sérstaklega sl. fimmtudag að þetta væri síðasti upplýsingafundurinn í bili, allir væru orðnir leiðir á þessum fundum og við yrðum að læra að lifa með veirunni í samfélaginu og laga okkur að því. Á sama tíma er faraldurinn á uppleið í heiminum, önnur bylgja komin af stað í Evrópu og nokkur lönd búin að setja kvaðir um 14 daga sóttkví hjá komufarþegum frá Spáni.

Skilaboðin sem Almannavarnir gáfu með þessu voru þau að ekki aðeins landsmenn væru farnir að slaka á í veiruvörnum, heldur væri þríeykið farið að gera það líka. Þess vegna var auðvitað alveg dæmigert að síðar sama dag myndu nú innanlandssmit greinast og svo hvert á fætur öðru. Því þurfti aftur að blása til fundar í dag og vekja þjóðina af kæruleysisblundi fyrir mestu ferðamannahelgi ársins.

Sóttvarnayfirvöld halda ekki aðeins upplýsingafund í dag, þau ráða líka ráðum sínum með heilbrigðisráðherra og fleiri aðilum. Ég spái því að á þeim fundum verði ákveðið að gera kröfu um sóttkví allra komufarþega til landsins næstu daga meðan unnið er að því að finna þann (eða líklega þá) sem bera með sér smit í samfélaginu og smituðu þá sem nú hafa greinst í þremur aðskildum málum. Það er ekki góð tilhugsun að vita af slíkum hópi meðal okkar nú, ekki síst ef á meðal þeirra er einn eða fleiri ofurdreifari, eins og margt bendir til.

Þegar sett var á samkomubann í byrjun mars sl. og viðbúnaðarstig Almannavarna fært upp í neyðarstig var það gert vegna innanlandssmita. Nú er sú staða komin aftur og ekki ólíklegt að í dag eða næstu daga verði kynntar tillögur um verulegar takmarkanir á samkomum. Þetta verður erfitt fyrir þjóðina að sætta sig við á hásumri, en gæti samt verið nauðsynlegt.

Líklegt er að fleiri upplýsingafundir komi til á næstunni og margir fleiri muni þurfa í sóttkví meðan unnið er að því að ráða niðurlögum þessarar nýju bylgju. Veiran er ekkert farin, hún er þvert á móti mætt aftur og ætlar sér eflaust stóra hluti. Það er undir okkur öllum komið hvort henni verður kápan úr því klæðinu. Sömuleiðis skulum við öll vera þakklát, nú sem fyrr, fyrir Íslenska erfðagreiningu í Vatnsmýrinni, sem ætlar enn á ný að stíga inn á sviðið með umfangsmiklum skimunum og raðgreiningum til að aðstoða sóttvarnayfirvöld og raunar þjóðina alla.

Björn Ingi er ritstjóri Viljans. Eftir verslunarmannahelgi kemur út bók eftir hann um Ísland og COVID-19, þar sem varpað er ljósi á það sem gerðist að tjaldabaki í fyrstu bylgju veirufarsóttarinnar hér frá því í janúar og fram í júlí.