Það er pólitísk ákvörðun að láta allt gossa núna

Með því að stjórnvöld haldi sig við fyrri áform um að skólar opni eftir jólaleyfi á morgun, þvert á tillögur sóttvarnalæknis, er verið að taka pólitíska ákvörðun um að láta veiruna gossa um allt samfélagið núna og vona það besta í ljósi hagfelldra tíðinda af alvarleika ómíkrón-afbrigðisins.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur ítrekað lagt til að skólar fari ekki af stað fyrr en 10. janúar, bæði til þess að meiri tími gefist til að meta alvarleika hins nýja afbrigðis sem fer nú eins og eldur í sinu, en ekki síður til að tími gefist til að bólusetja þá sem þurfa örvunarskammt, bólusetningu almennt og þau börn sem það kjósa ásamt foreldrum sínum.

Ég veit að kennarar í skólum á öllum stigum eru þessu sammála, en ríkisstjórnin er hörð á því að keyra sína stefnu áfram og breyta þar með út frá þeim meginsjónarmiðum að hlýða ráðum sérfræðinga.

Það þýðir að janúar og febrúar munu reyna á okkur öll. Strax og skólar opna munu smit berast milli hópa og fjölskyldna sem aldrei fyrr; heilu bekkirnir og jafnvel árgangarnir fara í sóttkví og einangrun og skólahald verður hálf lamað vegna fjarvista kennara sem þurfa að halda sig heima.

Margir foreldrar munu kjósa að halda börnum sínum heima fyrstu dagana til að sjá hver þróunin verður, en öll tölfræðin segir okkur að yfirgnæfandi líkur séu á að við sjálf og flestir sem við þekkjum muni smitast af veirunni á fyrstu vikum ársins.

Þetta þýðir líka að mörg fyrirtæki og stofnanir verða hálf lamaðar, því starfsfólkið kemst ekki til vinnu. Þetta mun reyna á okkur öll og vekja miklar spurningar í ljósi þess hversu margir hafa svarað ákalli um bólusetningar og ættu því að vera vel varðir gagnvart veirunni.

Bleiki fíllinn í stofunni tengist svo stöðunni á Landspítalanum. Þar er allt af sligast undan álagi og þurfti ekki COVID-19 til. Nú fjölgar á gjörgæslu og það sem enginn þorir að nefna, en þarf samt að gera, er að flestir þeirra sem veikjast alvarlega núna, eru útlendingar sem vinna hér og hafa íslenska kennitölu, en gera annars lítt eða ekkert með sóttvarnaráðstafanir okkar samfélags; neita að fá bólusetningar og leggja því meira á heilbrigðiskerfið okkar og eigin heilsu en ástæða væri til.

Víða í nágrannalöndunum er sama vandamál uppi gagnvart erlendu farandverkafólki, oftast austur evrópskum karlmönnum; sumstaðar hefur verið brugðið á óyndisúrræði eins og útgöngubann fyrir óbólusetta eða segja starfsfólki upp störfum sem neitar að bólusetja sig; allt vegna þess að slík ákvörðun fárra hefur gríðarlega íþyngjandi áhrif fyrir samfélagið allt.

Heilbrigðisráðherra hefur nú í tvígang gengið gegn tillögum sóttvarnalæknis á stuttum embættistíma sínum; fyrst með því að veita allskyns undanþágur frá samkomutakmörkunum fyrir jól og nú með því að virða ákall um lengra jólaleyfi að vettugi. Svo er að sjá að hann og aðrir í ríkisstjórninni séu farnir að hlusta meira á aðra sérfræðinga en Þórólf, kannski beinast spjótin þar einkum að forstjóra Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi.

Það er eins gott að þetta veðmál gangi eftir, því annars er hætt við að ráðherrann og ríkisstjórnin öll sitji uppi með Svarta Pétur. Við höfum farið einna best þjóða út út faraldrinum hingað til og vitum hvers vegna. Það sýnir pólitískt þor að bregða út af þeirri leið núna í þeirri von að veiran gossi bara út um allt og þar með náist hjarðónæmi hratt. Kannski mun það ganga eftir. Vonandi verður það ekki á endanum fífldirfskan ein.

Björn Ingi er ritstjóri Viljans.