Það þarf neyðaraðgerðir strax

Vika er langur tími í pólitík, sagði einhvers staðar og það á svo sannarlega við á okkar dögum. Þegar við vorum að skella steikinni inn í ofninn á gamlársdag og rifja upp gamlar minningar og setja upp fyrir okkur fróm nýársheit með bjartsýni í hjarta, vissum við ekki að hinumegin á hnettinum væri óþekktur veirusjúkdómur tekinn að breiðast út á ógnarhraða og myndi á fáeinum vikum gjörbreyta allri stöðu heimsmálanna, setja alþjóðavæðinguna og alþjóðlegt fjármálakerfi algjörlega á hliðina og ógna okkar daglegu tilveru.

En það er samt einmitt það sem gerðist. Kórónaveiran Covid-19 hefur breiðst út eins og eldur í sinu og ógnar nú lýðheilsu fólks um heim allan. Á friðartímum eru engin dæmi um jafn víðtækar stjórnvaldsaðgerðir og við sjáum nú á hverjum degi; landamæri lokast, flug er bannað og hver hugsar fyrst og fremst um sig.

Sóttvarnalæknir gerði loks tillögu um samkomubann í gær og landið verður á miklu minna en hálfum hraða næstu vikurnar. Fjölmörg atriði eru tiltekin og bönnuð næstu fjórar vikurnar, en samt vita einhvern veginn allir að bannið á eftir að verða útvíkkað verulega á næstu dögum og vikum og jafnvel framlengt — enda fátt ef nokkuð sem bendir til að veiran sé að ná hámarki í útbreiðslu hér á næstunni.

Það er til marks um hve þróunin er hröð, að ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að loka á flug frá Schengen-ríkjunum í Evrópu kom eins og reiðarslag um miðja vikuna. Nú örfáum sólarhringum síðar, hafa fjölmörg fleiri ríki ákveðið að loka landamærum sínum auk þess sem Bandaríkin hafa síðan bætt Bretlandi og Írlandi við bannið.

Það er nefnilega hver að hugsa um sig.

Og óttinn, hinn lamandi ótti við afleiðingar veirunnar er að grípa um sig út um allan heim. Skelfingarsögur berast frá yfirfullum ítölskum sjúkrahúsum og Íranir ráða ekki neitt við neitt. Þó ber þess að geta, að frá Asíu berast betri fregnir en áður og vonandi er veiran í rénun þar.

Ekki þarf doktorsgráðu í fjármálaverkfræði til að reikna það út að tími umræðna um ástandið er liðinn og tími aðgerða runninn upp. Fyrirtækin í landinu hafa troðið marvaðann í vandræðum sínum eftir fall WOW í fyrra og vandræði Icelandair með MAX-vélarnar, en reiðarslagið nú í ferðaþjónustunni er lamandi fyrir allt samfélagið. Öll heimili finna fyrir þessu og flest fyrirtækin, ef ekki öll.

Kórónaveiran sjálf var nægilegt högg fyrir öll áform um rífandi gang í ferðaþjónustunni árið 2020, en bann Bandaríkjanna ýtti slíkum draumum út af borðinu í einu vetfangi. Svo fóru að bætast við fleiri lokuð lönd, t.d. Danmörk, Noregur, Spánn og Pólland og staðan verður sífellt ískyggilegri. Sérstaklega þar sem morgunljóst er að listinn mun halda áfram að lengjast, harkan að aukast í samskiptum ríkja og óttinn meðal almennings sömuleiðis.

Það hugsar nefnilega hver um sig.

Í þessu ljósi er alveg klárt að Icelandair — okkar kerfislega mikilvæga fyrirtæki og eina alþjóðlega flugfélagið með höfuðstöðvar hér á landi, verður nú þegar að fá myndarlegan stuðning stjórnvalda, ef ekki á illa að fara. Komin er upp sú staða, að leggja verður flestum vélum félagsins og segja upp gríðarlegum fjölda starfsmanna. Vandséð er að félagið lifi næstu daga og vikur af, að óbreyttu.

Björn Ingi Hrafnsson ritstjóri Viljans.

Það þarf neyðaraðgerðir til.

Að ekki sé talað um ferðaþjónustuna almennt og önnur fyrirtæki í landinu. Sem og heimilin sem horfa upp á risaskell með vaxandi verðbólgu og auknu atvinnuleysi.

Það þarf neyðaraðgerðir strax.

Enga smáplástra á svöðusár. Alvöru aðgerðir sem skipta máli og bjarga því sem bjargað verður.

Annars á eftir að fara mjög, mjög illa.

Ríkisstjórnin og forysta hennar verður strax að átta sig á því, að það hugsar núna hvert ríki um sig.

Yfir til ykkar.

Höfundur er ritstjóri Viljans.