Bretadrottning: „Smáu skrefin“ varanlegust til breytinga

Elísabet II Bretadrottning, flutti jóladagsávarp í græna herbergi Windsor-kastala í gær.

Í jóladagsávarpi Elísabetar II, Bretadrottningar, rifjaði hún upp „rysjótt“ ár konungsfjölskyldunnar, allt frá BREXIT, til vandræða Andrésar prins á árinu vegna Epstein málsins. Hann sagði sig frá opinberum skyldum sínum innan konungsfjölskyldunnar í framhaldinu, án frekari umræðu.

Drottningin minntist 75 ára afmælis innrásarinnar í Normandí og tunglgöngu Neil Armstrong eftir að Appollo 11 lenti þar fyrir 50 árum.

Jafnframt minntist hún fæðingar frumburðar Harry og Meghan, Archie, og 200 ára afmælis Viktoríu drottningar, langalangömmu sinnar.

Að lokum beindi hún athygli sinni að sögunni um jólin, og sérstaklega „boðskap englanna um frið og velvilja.“

„Það er tímabær áminning um árangur sem næst þegar fólk leggur ágreining fortíðar til hliðar, og mætist í anda vináttu og sátta,“ sagði hún.

„Og eins og við öll horfum fram á byrjun nýs áratugar, þá er vert að hafa í huga að það eru oft hin smáu skref, en ekki hástökkin, sem leiða til varanlegustu breytinganna.“

Hlusta má á ræðuna í heild sinni hér.