Nýr Þjóðarpúls Gallup fyrir ágúst, sem Ríkisútvarpið birti í gær, teiknar enn dekkri mynd af stöðu stjórnarflokkanna þriggja en að undanförnu og var hún þó ekki björt fyrir. VG er þannig komið undir fylgi Sósíalistaflokksins og á þráðbeinni leið út af þingi, auk þess sem Sjálfstæðisflokkurinn fær (enn einu sinni) sína verstu mælingu í sögu Gallup á Íslandi. Miðflokkurinn er hins vegar áfram í mikilli sókn.
Hin óvinsæla ríkisstjórn litar mjög fylgi allra stjórnarflokkanna. VG er komið niður í 3,5% og fengi engan þingmann, ef þetta yrði niðurstaðan. Sósíalistaflokkurinn fengi mun meira, eða 4,7% sem myndi þó ekki duga til að ná inn kjördæmakjörnum manni.
Samfylkingin er stærst flokka, skv. könnuninni með 27,6%, þá kemur Sjálfstæðisflokkurinn með 17,2% og fellur um rúmt prósentustig milli mánaða og í þriðja sæti er Miðflokkurinn með 14,6% stuðning, sem er þreföldun á fylgi frá í kosningunum árið 2021.
Þrír flokkar eru á líku reki töluvert fyrir neðan; Viðreisn (8,8%), Flokkur fólksins (8,6%) og Píratar (7,8%) en þar fyrir neðan er Framsóknarflokkurinn með 7,2%.
Stuðningur við ríkisstjórnina er aðeins um 27%, sem er minna en sögulega lágt fylgi flokkanna þriggja gefur til kynna.