Almannahagsmunir að Sjálfstæðisflokkur sé hér við völd

Brynjar Níelsson, lögmaður og fv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Það eru almannahagsmunir að Bjarni Benediktsson verði áfram forsætisráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn við völd, sagði Brynjar Níelsson lögmaður og fv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í útvarpsþættinum Ísland í bítið á Bylgjunni í morgun.

Brynjar var þar kominn sem formaður svonefnds gullhúðunarhóps utanríkisráðherra sem skilaði af sér skýrslu í gær, en talið barst í þættinum að vantrausttillögu Miðflokksins á hendur matvælaráðherra vegna hvalveiðimálsins.

Brynjar kvaðst ekki vita hvernig þingmenn Sjálfstæðisflokksins myndu greiða atkvæði í vantraustinu, en viðurkenndi þó að mikið væri undir og ríkisstjórnarsamstarfið þar með talið.

Skoðanakannanir hafa verið mótdrægar ríkisstjórninni um langt skeið og fylgi stjórnarflokkanna þriggja í sögulegri lægð.