„Mörg þung orð hafa fallið á þinginu í garð stjórnarinnar og í tvígang var lagt fram vantraust á örfáum vikum. Við allt þetta styrktist stjórnin og efldist enda erum við að ljúka miklum fjölda mála hér í kvöld. Sum þessara mála hafa verið í undirbúningi í mörg ár, önnur fyrir þinginu ítrekað en flest hafa verið lögð fyrir þingið í vetur,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í færslu sem hann birti á fésbókinni í gærkvöldi þegar ljóst var að þingi yrði frestað fram á haust.
„Við sögðum við endurnýjun samstarfs flokkanna í vor að við myndum leggja áherslu á útlendingamálin, orkumál og efnahagsmál. Að auki væru stór tímamótamál til afgreiðslu á borð við breytingar á örorkubótakerfinu og lögreglulög.
Allt er þetta að ganga fram samkvæmt áætlun. Hrakspár um annað leysast upp og verða að engu hér á þinginu í kvöld, þegar afrakstur þingstarfanna liggur fyrir.
Mál sem frestast, eins og samgönguáætlun og lagareldið, koma aftur fyrir þingið í haust og gefst tími til að vinna úr þeim gögnum og umsögnum sem komu fram í þinglegri meðferð í millitíðinni. Má ætla að við það fáist betri niðurstaða.
Einnig má hafa í huga að á þessu þingi hafa kjarasamningar á almennum markaði verið gerðir til lengri tíma og stór hluti opinbera markaðarins lauk samningum á dögunum. Þetta rennir stoðum undir meiri stöðugleika í efnahagsmálum,“ bætti hann við.