Bjarni Benediktsson forsætisráðherra var vígreifur á þingi í dag, þegar ný útlendingalög ríkisstjórnar hans voru samþykkt með afgerandi hætti. Samfylkingin og Viðreisn sátu hjá við afgreiðslu málsins vegna aukinna takmarkana á möguleikum til fjölskyldusameiningar, en aðeins þingmenn Pírata voru beinlínis á móti lagasetningunni.
„Þegar ríkisstjórnarflokkarnir endurnýjuðu samstarf sitt á vormánuðum þá sögðu þeir að þeir ætluðu að grípa til aðgerða í útlendingamálum. Það var sérstaklega vísað til þessa máls og það heyrðust miklar efasemdaraddir frá stjórnarandstöðunni um að flokkarnir hefðu getu og burði til þess að ljúka málinu. Við erum að sýna það í verki hér í dag að við höfum getu og burði, áræðni og framtíðarsýn í þessum málaflokki sem birtist í lokum þessa máls í dag,“ sagði Bjarni á þingi er hann fagnaði þessari niðurstöðu og þakkaði hann þingnefndinni sem fór yfir málið sérstaklega sem og Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra „fyrir öfluga málafylgju“ eins og hann orðaði það.
„Ríkisstjórnin er að grípa til aðgerða vegna þrýstings á félagslega og efnislega innviði í landinu sem nauðsynlegt er að gera á þessum tímapunkti. Það er dapurlegt að sjá að ekki sé breiðari samstaða um þessar mikilvægu aðgerðir hér í þinginu. Samhliða þessu er ríkisstjórnin með fjármagn til að fara í inngildingarverkefni vegna þess að rétt er að við höfum skyldum að gegna gagnvart þeim sem við höfum veitt vernd á Íslandi og öðrum þeim sem hafa flutt til landsins til að koma hér undir sig fótunum og starfa. Öllum þessum verkefnum ætlum við að sinna og grípum til aðgerða á þessum tímapunkti. Og já, við munum áfram vinna að því að aðlaga lög og reglur að því ástandi sem skapast á landamærunum og í landinu,“ bætti forsætisráðherrann við.
Við atkvæðaskýringu sagði dómsmálaráðherra að markmið frumvarpsins hefðu verið skýr. „Þau eru, eins og hér hefur komið fram, að samræma okkar löggjöf við löggjöf Norðurlandanna en einnig að taka út úr okkar löggjöf séríslenskar málsmeðferðarreglur. Ég fagna því einnig að komin sé fram heildstæð sýn og stefna í málaflokknum sem ríkisstjórnin sammæltist um hér fyrr í vetur og þetta frumvarp er mikilvægur liður í þeirri stefnu,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.