Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra og nýr formaður VG, ofmat stöðu sína með því að niðurlægja Sjálfstæðisflokkinn ítrekað með yfirlýsingum um vorkosningar og málaflokka Sjálfstæðisflokksins og Bjarni Benediktsson hlýtur að binda enda á stjórnarsamstarfið nú um helgina og boða til kosninga, segir Össur Skarphéðinsson, fv. utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar. Hann segir að málið hljóti að snúast um sjálfsvirðingu Bjarna og Sjálfstæðisflokksins, ekki sé hægt að láta 3% flokk í tilvistarkreppu stjórna öllu í ríkisstjórninni.
Í samtali við Björn Inga Hrafnsson, ritstjóra Viljans, ræða Össur og Þorsteinn Pálsson, fv. formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, stjórnmálaástandið. Þorsteinn segir ríkisstjórnina þegar sprungna, nú sé starfsstjórn að störfum og hún sé í öndunarvél sem gagnist vel á sjúkrahúsum en ekki í stjórnmálum.
Fjallað er ítarlega á nítíu mínútum um stöðu allra stjórnmálaflokkanna, möguleika þeirra í væntanlegum kosningum, forystumál þeirra og fleira. Spjall sem áhugafólk um stjórnmál á ekki að láta framhjá sér fara.