„Ég vissi bara ekki að planið væri að klára Sjálfstæðisflokkinn,“ segir Stefán Einar Stefánsson, blaðamaður á Morgunblaðinu aðspurður um stöðu Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnun Maskínu í vikunni, sem sýndi sögulega fylgislægð – 15%.
Í nýjasta þætti hlaðvarps Þjóðmála ræðir Gísli Freyr Valdórsson við Stefán Einar og Hörð Ægisson viðskiptablaðamann um stöðuna í stjórnmálunum. Gísli nefnir í þættinum áherslu forystu Sjálfstæðisflokksins á mikilvægi þess að „klára verkefnin“ og Hörður bendir þá á að litlu muni nú á Sjálfstæðisflokknum og Miðflokknum í könnunum, eða aðeins tveimur prósentustigum.
Þeir félagar undrast í spjalli sínu ekki fylgistap Sjálfstæðisflokksins meðan ríkisstjórnin klári sérstaka Mannréttindastofnun fyrir VG og stóraukin listamannalaun fyrir Framsókn, svo dæmi séu tekin.
„Það er orðið eitthvað rof milli forystu flokksins og kjörinna fulltrúa og svo þess fólks sem vill fylkja sér að baki sjálfstæðisstefnunni, hægri gildum og borgaralegum gildum,“ segir Stefán Einar. Hann bendir á að nokkur sveifla sé til hægri í stjórnmálunum um þessar mundir, en ríkisstjórnarsamstarfið geri það að verkum, að Sjálfstæðisflokkurinn njóti ekki góðs af því, nema síður sé. Kjósendur hans hafi ekki farið í kjörklefann til að tryggja aukin ríkisútgjöld og vinstri áherslur.
Hægt er að hlýða á umræður þeirra félaga í spilaranum hér að neðan.