Fjöldamorðinginn í Christchurch kom til Íslands fyrir tveimur árum

Á undanförnum árum hefur Brenton Harrison Tarrant, ástralski maðurinn sem ber ábyrgð á mannskæðustu skotárás í sögu Nýja Sjálands, þar sem 50 manns sem sóttu bænastarf í mosku í borginni Christchurch voru miskunnarlaust drepin, ferðast vítt og breitt um heiminn og viðað að sér fróðleik um innflytjendur og fleira, sem hann setur fram sem rökstuðning fyrir voðaverkum sínum í 74 blaðsíðna yfirlýsingu sem hann birti á samfélagsmiðlum. Meðal landa sem hann kveðst hafa heimsótt fyrir tveimur árum, er Ísland.

Frá þessu er greint í bandaríska stórblaðinu Washington Post.

Tarrant hefur ferðast heimshorna á milli undanfarin ár, sótt heim Norður Kóreu, Norðurlöndin, Pakistan, Tyrkland, Úkraínu, Pólland og fleiri ríki vestur Evrópu, auk Argentínu.

Í yfirlýsingu sinni (sem þykir minna mjög á sambærilegt rit Anders Breivik) segir hann að ferðalag um Evrópu árið 2017 hafi breytt mjög viðhorfum sínum til innflytjendamála. Frönsku kosningarnar það ár vöktu hneykslan hans, þar sem franska þjóðin hafi verið í minnihluta gagnvart fjölda innflytjenda.

Viljinn hefur sent fyrirspurnir um Íslandsheimsókn fjöldamorðingjans til embættis Ríkislögreglustjóra, þar eð sambærileg lögregluembætti í þeim löndum sem Tarrant heimsótti, rannsaka nú hvert hann fór á ferðum sínum og kannski það sem meira er um vert: Hverja hann heimsótti og ræddi við og hvort vera kunni að hann eigi hér á landi einhverja bandamenn.