Gremja VG birtist núna eins og kennslubókarefni um meðvirkni

„Ríkisstjórnarflokkarnir geta ekki auðveldlega verið í sama húsi og þess vegna þarf að ljúka þingi pronto. Niðurstaðan verður hin sama og í fyrra: Allir út úr húsinu hið fyrsta,“ skrifar þingmaður Viðreisnar, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, á fésbókina.

„Í fyrra lauk störfum Alþingis á þann hátt að ríkisstjórnin fór í frí og öllum málum var kastað í ruslið. Í ár fara ekki alveg öll mál í ruslið en flest stærstu málin munu rata þangað. Annað árið í röð verður það ekki vegna stjórnarandstöðu heldur vegna þess að formenn flokkanna stroka út mál hinna flokkanna.“

Þorbjörg segir forystumenn stjórnarflokkanna á flótta hvert frá öðru eftir erfiðar ræður og fýluleg viðtöl í kjölfar umræðu um vantraust.

„Gremja VG með ræður þingmanna Sjálfstæðisflokks um óþol þeirra gagnvart VG birtist núna eins og kennslubókarefni um meðvirkni. Við lesum kvart VG liða á netinu um að stjórnarandstaðan hafi mátt standa betur með þeirra bestu konu. Þau hefðu mátt standa betur með henni. Stjórnarandstöðuflokkur mun á öllum eðlilegum tímum kjósa með vantrausti. Fólk sem man eftir VG í stjórnarandstöðu veit að enginn flokkur hefði gengið harðar fram þar en einmitt VG.

Gremja Sjálfstæðisflokks með að þurfa að verja hvernig ráðherra VG fór með vald sitt birtist í því að langar skýringar birtast um að atkvæðagreiðslan um vantraust á ráðherra VG hafi auðvitað þegar betur var gáð verið atkvæðagreiðsla um traust til Bjarna Ben – og um það hver er heitasti stuðningsmaður Bjarna Ben.

En atkvæðagreiðslan snerist um það í skjóli hverra ráðherra ríkisstjórnarinnar situr. Niðurstaðan segir að matvælaráðherra situr áfram sem ráðherra í skjóli þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Reikningurinn fyrir þessi málalok verður í grunninn hinn sami og í fyrra: Lítið verður um afgreidd mál á Alþingi,“ bætir hún við.