Hvernig geta færeyskir bankar boðið heimilunum upp á svona góð kjör?

„Ég hef áður komið hér upp og talað um að fólk á mínum aldri sé afar upptekið af því hverjar vaxtahækkanirnar eru og hvað það er ótrúlega dýrt að versla í matinn. Við ræðum stundum um þetta eins og það sé óhjákvæmilegt við það að búa á Íslandi, að það að búa hér sé ávísun á háa vexti og svimandi hátt matarverð. En svo er ekki,“ sagði Elva Dögg Sigurðardóttir á Alþingi í gær, en hún situr á þingi þessa dagana sem varaþingmaður Viðreisnar.

„Í Færeyjum er þetta ekki staðreyndin. Þar búa um 50.000 manns, helsta atvinnugrein þeirra er sjávarútvegur og ferðaþjónusta fer vaxandi. Þar er mikill hagvöxtur og fólksfjölgun umfram íbúðauppbyggingu eins og á Íslandi. Samt eru vextir á húsnæðislánum þeirra um helmingi lægri en gengur og gerist hér. En hvernig geta þeir þetta? Hvernig geta færeyskir bankar boðið heimilunum upp á svona góð kjör? Færeyingar eru með danska krónu og því danska vexti. Danir eru með sína krónu tengda við evru og því spyr ég: Af hverju erum við ekki að nýta okkur þessar leiðir? Af hverju eru ekki allir þingmenn að ræða þá staðreynd að nágrannar okkar geta boðið heimilum landsins upp á miklu lægri vexti?

Þjóðinni er sagt að það sé ekki á dagskrá að skipta um gjaldmiðil, að við þurfum fyrst að bregðast við stöðunni núna og sjá svo til. Við í Viðreisn segjum aftur á móti: Við þurfum að bregðast við stöðunni núna, leyfa þjóðinni á sama tíma að kjósa um áframhaldandi samningaviðræður við Evrópusambandið. Ef þjóðin segir svo já þá gætum við á endanum tekið upp evru og rússibanareið vaxta og verðbólgu væri þá ekki viðvarandi ástand hér. Það er nefnilega ekki þannig að þetta þurfi að vera svona, það er val að hafa þetta svona. Við getum búið svo um hnútana að hér verði þetta ástand ekki áfram viðvarandi. Það sem þarf að gera er að kjósa fólk til starfa hér sem hugsar fram í tímann og þorir að leyfa þjóðinni að ráða,“ bætti hún við.