Jón Gunnarsson efast um erindi VG: Neitaði að verja matvælaráðherra vantrausti

Jón Gunnarsson fv. ráðherra greiddi ekki atkvæði á þingi í dag í atkvæðagreiðslu um vantraust á hendur Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra.

Hann var eini þingmaður stjórnarmeirihlutans sem greiddi ekki atkvæði gegn vantraustinu. Sagði hann framkomu ráðherrans fordæmalausa, tilgangurinn hafi helgað meðalið og rökstuðningur Bjarkeyjar fyrir ákvörðuninni eftir á hafi einkennst af blekkingarleik. Sagði hann ekki undrast að lagt væri fram vantraust við slíkar aðstæður.

„Við ræðum vantraust sem byggir á misbeitingu valds. Það verður reyndar að taka fram að afstaða þeirra sem vilja banna og talað um að banna ákveðna atvinnustarfsemi er engu betri en þess sem þau saka nú um misbeitingu valds. Það er eðlileg krafa að ráðherrar víki við embætti úr embætti við slíkar aðstæður ef rétt reynist. Ábyrgðin liggur fyrst og fremst hjá þingflokki þess sem ráðherrann situr í umboði fyrir og það er flókin staða hjá þingflokki VG í þeim efnum. Tveir af þremur ráðherrum eru þegar með hæstaréttardóm á bakinu fyrir að brjóta á réttindum sveitarfélaga og almennings og nú má segja að fleiri dómar séu væntanlegir. Staðan er augljóslega sú að stjórnmálaflokkur sem styður og lætur slík vinnubrögð átölulaus á kannski takmarkað erindi á Alþingi Íslendinga,“ sagði Jón í atkvæðaskýringu sinni.

Hann bætti við:

„Það eru viðsjárverðir tímar í íslenskri pólitík og ábyrgðarhluti að rjúfa ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra á þessum degi. Ég treysti forsætisráðherra og mörgum ráðherrum ríkisstjórnarinnar og ég greiði því ekki atkvæði.“