„Ég segi mig úr VG vegna svika flokksins við eigin sjávarútvegsstefnu!“ segir Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður Vinstri grænna um árabil og núverandi varaþingmaður flokksins, í aðsendri grein sem birtist á Vísi nú í morgun – daginn eftir frestun funda Alþingis.
Tilefnið er lagasetning Alþingis í gær um fyrirkomulag grásleppuveiða:
„VG er að færa Grásleppuna yfir í gjafakvótakerfið í nafni sérhagsmuna og almannahagsmunir og og stjórnarskrávarin atvinnuréttindi eru fótum troðin. Ekkert í verndun fiskistofna kallar á kvótasetningu með framsali né heldur það að fénýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar í þágu fjármagnseigenda.
Ekkert gert til að efla smábátaútgerð og byggðafestu.
Þar tók steininn úr þegar VG samþykkti við þinglok frumvarp um kvótasetningu og framsal á Grásleppu og tók þar með upp stefnu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í sjávarútvegsmálum.
Vinstri græn hafa verið með Matvælaráðuneytið þetta kjörtímabil og ekkert hefur verið gert til þess að styrkja Strandveiðar eða efla félagslega hluta kerfisins heldur þvert á móti tíminn nýttur í vinnu fjölmennrar Auðlindanefndar sem ekkert kom út úr fyrir þá minnstu í kerfinu og félagslega hlutann og Strandveiðarnar. Heldur var þar lagt til að hækka enn frekar kvótaþakið fyrir stórútgerðina í stað þess að taka á þeim veruleika að í mörg ár hefur verið gagnrýnt að þar væru kross eignatengsl og allt benti til þess að útgerðir væru komnar yfir leyfilega aflahlutdeild,“ bætir Lilja Rafney við og segir trúverðugleika VG einfaldlega brostinn.