Margir í íslenskum stjórnmálum hafa áhyggjur af uppgangi Miðflokksins sem fer með himinskautum í skoðanakönnunum og mældist stærri en Sjálfstæðisflokkurinn í Maskínukönnun fyrr í mánuðinum.
Það segir kannski sína sögu að tveggja manna þingflokkur þeirra Sigmundar Davíðs og Bergþórs Ólasonar skuli standa fyrir öflugustu stjórnarandstöðunni, að mati Andrésar Magnússonar, fulltrúa ritstjóra Morgunblaðsins, en vitaskuld er skynsamlegt fyrir flokkinn að sýna aukna breidd; fleiri andlit þegar dregur að kosningum. Að kynna þjóðinni grasrótarstarfið og mögulega nýja þingmenn, því skv. könnunum er líklegt að þeim fjölgi umtalsvert á næstunni.
Segja má að stórt skref hafi verið stigið í þeim efnum í vikunni þegar Freyfaxi, Ungliðahreyfing Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi var sett á laggirnar.
Anton Sveinn McKee, Ólympíufari, hefur verið kjörinn formaður og tekið við forystu Freyfaxa. Hreyfingin er ný og var stofnuð þann 20. september 2024 á fjölmennum stofnfundi. Ásamt Antoni skipa stjórnina: Einar Jóhannes Guðnason, viðskiptastjóri, Eden Ósk Eyjólfsdóttir, nemi í nýsköpun og frumkvöðlabraut FSN, Valgerður Helgadóttir, starfsmaður hjá Landspítalanum og nemi í FSN og Viktor Leví Andrason, leikari.
„Það er heiður að fá að leiða þennan framsækna og metnaðarfulla hóp. Við erum samansafn af ungu fólki úr Kraganum sem kallar á breytingar í íslenskum stjórnmálum. Aðstæður í samfélaginu eru mörgu ungu fólki erfiðar og nú ríður á að auka ungu fólki bjartsýni á framtíðina. Grunnstoðir samfélagsins eru laskaðar og við sættum okkur ekki við það ástand. Það er kominn tími á skynsemishyggju í efnahags-, húsnæðis-, og menntamálum. Miðflokkurinn mun leiða á grundvelli þeirrar stefnu,“ segir Anton Sveinn.
Hann bætir við: „Það er mikilvægt að ungt fólk fái tækifæri til að móta framtíð sína og taka virkan þátt í samfélagsmálum, sérstaklega þegar samfélagið stendur á krossgötum. Við viljum hvetja alla unga Íslendinga sem vilja móta framtíð landsins okkar til að taka þátt í þessari nýju hreyfingu og ganga til liðs við okkur. Við viljum sýna að ungt fólk getur verið hreyfiafl í samfélaginu og tekið virkan þátt í að móta framtíð þess.“
Stjórn Freyfaxa: F.v. Einar Jóhannes Guðnason, Eden Ósk Eyjólfsdóttir, Anton Sveinn Mckee, Valgerður Helgadóttir, Viktor Leví Andrason. Í tilefni af stofnuninni mun Ungliðahreyfingin standa fyrir nýliðakvöldi þann 28. september kl. 20:00, í Hamraborg 1, þar sem allir á aldrinum 15 til 35 ára eru hvattir til að mæta. Fleiri upplýsingar um viðburðinn er hægt að nálgast á samfélagsmiðlum Freyfaxa.