Óeðlileg stjórnsýsla ráðherra og án lagastoðar: „Erum komin á býsna undarlegan stað“

Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins. / Eyþór Árnason fyrir Alþingi.

„Gærdagurinn var æði undarlegur í fréttum eins og við öll urðum vitni að,“ sagði Bergþór Ólason formaður þingflokks Miðflokksins á Alþingi í dag þegar hann benti á að Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hafi sjálf lýst því að hún hefði nóttina áður gripið til aðgerða sem hefðu verið henni þvert um geð og gætu ekki talist eðlileg stjórnsýsla og skort hefði lagaheimild til þess að fresta brottflutningi vegna boðaðrar umræðu í ríkisstjórn.

„Þegar dómsmálaráðherra lýsir því yfir að hann hafi gengið til verkefna sem ekki hafi verið lagaheimild til að framkvæma þá erum við komin á býsna undarlegan stað. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Ráðherrum Vinstri grænna hefur oft á tíðum þótt það kannski meira fyrir aðra að fara eftir lögum heldur en sig sjálfa, en þegar dómsmálaráðherra sjálfur finnur sig í þessari stöðu þá verðum við eiginlega hér í þinginu að fá frekari upplýsingar um það með hvaða hætti þetta gekk allt saman fyrir sig. Þá verðum við að taka efnisatriði málsins kannski svolítið út fyrir sviga og til hliðar því þegar þannig þrýstingur kemur upp innan ríkisstjórnarinnar að krafa samstarfsflokks á dómsmálaráðherra um að ganga gegn lögum í landinu gengur eftir þá er ég ekki viss um að það sé staður sem við viljum vera á,“ sagði Bergþór.

Hann hvatti forseta Alþingis til þess að skoða þetta atriði sérstaklega. „Það skiptir raunverulegu máli fyrir þingið að hér sitji ekki stjórn í skjóli þingsins sem gengur um lög og reglur eins og þær séu bara ætlaðar fyrir aðra,“ bætti Bergþór við.