Óli Björn: Mistök að samþykkja VG í atvinnuvegaráðuneytið

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Atkvæðagreiðslan á Alþingi í dag um vantraust á matvælaráðherrann, leiddi í ljós þann djúpstæða ágreining sem er innan stjórnarflokkanna í mörgum málum. Jón Gunnarsson neitaði að verja ráðherrann vantrausti, eins og Viljinn fjallaði um fyrr í dag, en Óli Björn Kárason, fv. formaður þingflokks sjálfstæðismanna, gerði það þó, en fyrst og síðast til þess að styðja Bjarna Benediktsson forsætisráðherra.

Óli Björn ráðst raunar hraustlega á VG í atkvæðaskýringu sinni:

„Á mjög fjölmennum flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í ágúst á síðastliðnu ári viðurkenndi ég það að það hefðu verið mistök hjá okkur Sjálfstæðismönnum að samþykkja atvinnuvegaráðuneyti væri í höndum Vinstri grænna. Ég er enn þá þeirrar skoðunar,“ sagði hann.

Hann varði þó ráðherrann vantrausti og færði svofelld rök fyrir því:

„Eftir að hafa setið í þingsal og hlustað á þann málflutning stjórnarandstöðunnar og málatilbúnað ef málatilbúnað skyldi kalla, þá get ég aldrei slegist í lið með slíku fólki. Ég mun aldrei vera í liði með þeim sem reyna að fella ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Ég mun þegar ég vakna í fyrramálið, ýta glaður í spegil og nokkuð sáttur við sjálfan mig eftir að hafa sagt nei.“