„Nú hefur þessi ríkisstjórn setið hér við stjórnvölinn í hartnær sjö ár. Ef við lítum um öxl þá er það nú eiginlega varla á færi nema hörðustu nagla þegar við horfum yfir sviðið og hvernig í rauninni þessari ríkisstjórn hefur tekist að hella olíu yfir samfélagið og hreinlega bera eld að því,“ sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í gærkvöldi.
Hún sagði forgangsröðun fjármuna vera með ólíkindum: „Við horfum upp á Hörpupartí upp á rúmlega 2 milljarða. Við horfum upp á 4 milljarða til vopnakaupa á hverju einasta ári næstu fjögur árin og er það tvisvar sinnum hærri upphæð heldur en þessi ríkisstjórn setur í fíknisjúkdóminn eins og hann leggur sig, sjúkdóm þar sem 100 einstaklingar deyja árlega ótímabærum dauða og yfir 700 einstaklingar bíða eftir því að komast að á sjúkrahúsinu Vogi. Langtímameðferð og langtímaúrræði, félagslegan stuðning, fast land undir fótum og húsnæði er hvergi að hafa fyrir þetta fólk.“
Ríkissjóður fótumtroðinn
„Við horfum ítrekað á það hvernig er fótumtroðin sú auðlind sem við eigum og heitir ríkissjóður. Þetta er ekki ótæmandi lind en forgangsröðun fjármuna hefur sýnt sig í verki hjá þessari ríkisstjórn í tæp sjö ár, að hinn almenni borgari, venjulegt fólk í landinu, geti étið það sem úti frýs. Það á ekki upp á pallborðið hjá þessari ríkisstjórn vaxandi fátækt, vaxandi kjaragliðnun og vaxandi húsnæðisskortur — rekin húsnæðisskortsstefna að vísu í áraraðir þrátt fyrir að hér komi mantran um að það vanti að byggja meira, vanti 30.000 íbúðir og að lofað sé að byggja 35.000 íbúðir á næstu tíu árum.
Hvar eru allar þessar íbúðir? Hvernig stendur á því að yfir 78% af öllum fasteignum okkar eru komin í hendurnar á græðgisvæddum leigufélögum? Hvers vegna hefur þessi þróun fengið að ganga svo áfram að það liggur algjörlega á borðinu að fæstir munu hafa efni á því að eignast þak yfir höfuðið? Fátækt fólk sem er hneppt í fátæktargildru í boði þessarar ríkisstjórnar, fær það greiðslumat? Er það bært til þess að geta keypt sér litla íbúð eða komið sér upp föstu heimili og þaki yfir höfuðið? Nei, það er það ekki. En það má leigja af okurgræðgisvæddu leigufélögunum fyrir kannski 300.000 á mánuði fyrir einhverja kjallaraíbúð en það er ekki bært til að greiða sömu upphæð inn á lánið sitt til að eignast þak yfir höfuðið.
Hryllileg framkoma við almenning
Framkoman við íslenskan almenning er í slíkum hryllingi að ég get varla komið nokkrum einustu orðum að því.
Og nú það nýjasta, hugsið ykkur: Fátækt íslenskra barna undir verndarvæng mennta- og barnamálaráðherra hefur vaxið um 44% síðan ég steig inn á Alþingi Íslendinga.
Lestri íslenskra barna hefur hnignað það mikið að nú er talið að um 50% íslenskra drengja útskrifist úr grunnskóla með lélegan lesskilning eða ólæsir með öllu.
Hvurs lags eiginlega samfélag er þetta?
Það er bara reynt að lýsa yfir vantrausti á handónýta ríkisstjórn sem veldur ekki verkinu. Ég get ekki dæmt um það hvort það er út af því að þá skorti vit eða visku eða hvort það er hreinlega af eintómri illgirni sem þeir horfa upp á það hvernig samfélagið og þeir sem minnst mega sín eru settir hjá garði ár eftir ár í þeirra umboði.
Nú á að selja gullgæsina
En það skal taka gullgæsina og selja Íslandsbanka vegna þess að það borgar sig nú ekki að leggja það okur á Íslendinga að fá að þiggja arðgreiðslur upp á tugi milljarða eins og Íslandsbanki hefur sett í ríkiskassann á síðustu árum. Nei, það borgar sig að koma því frekar til vina sinna og vandamanna. Það er það sem málið snýst um, eignaupptöku okkar. Hér er gengið um auðlindir okkar á skítugum skónum. Valdníðslan og valdaokrið í samfélaginu er með slíkum ólíkindum að hér geta ráðherrar brotið lög. Þeir gera bara nákvæmlega það sem þeim sýnist og þeir axla enga ábyrgð á því. Á sama tíma skrifar móðirin inn á samfélagsmiðla og spyr: Getur einhver sagt mér það hvernig ég á að fara að því að gefa börnunum mínum tveimur hollustumat svo þau líði ekki næringarskort þegar ég hef 5.000 kr. á viku? Ég hef 20.000 kr. á mánuði, 5.000 kr. á viku til að gefa börnunum mínum að borða. Þessi ríkisstjórn hins vegar lætur ekki einu sinni fjármuni í hjálparstofnanir sem eru að gefa fátæku fólki mat, sem myndi tryggja það að þau börn sem báðu ekki einu sinni um það að líða skort fái mat á diskinn. Þá eru ekki til peningar.
Það hefur svo gjörsamlega gengið fram af mér þann tíma sem ég hef verið á Alþingi Íslendinga hvernig almenningur og Íslendingar eru fótumtroðnir, hvernig hægt er að dæla hverju frumvarpinu á methraða í gegnum þingið. Nema náttúrlega núna. Síðustu daga ákváðum við að við myndum kannski ræða þessi frumvörp sem ríkisstjórnin hefur verið að reyna að böðlast með í gegnum þingið, enda var sannarlega ekki vanþörf á því. Við vitum af húsnæðisskorti, við vitum um vanda eldri borgara. Þeir mega daga uppi á Landspítala – háskólasjúkrahúsi svo tugum og jafnvel hundruðum skiptir í dýrasta úrræði sem hægt er að hafa og hægt er að kalla hjúkrunarrými. Landspítali – háskólasjúkrahús, hugsið ykkur. Samt sem áður var búið að undirbúa það að hér myndi okkur eldra fólki fjölga mjög mikið. Við værum orðin svo frísk. Eldra fólki myndi fjölga ofboðslega mikið.
Hvað átti að gera við þetta eldra fólk? Átti bara að setja það út á götu?
Hvað átti að gera við þetta eldra fólk? Átti bara að setja það út á götu? Átti ekki að tryggja að það hefði fæði, klæði og húsnæði? Átti ekki að tryggja umönnun fólksins okkar eða átti bara að loka augunum, stinga hausnum í sandinn eins og venjulega og draga hausinn svo upp úr þessum sama sandbing einhvern tíma seinna og vonast til þess að vandinn hefði bara flogið hjá?
Það eru óteljandi úrræði sem Flokkur fólksins hefur komið með hingað í þetta hæsta ræðupúlt landsins, æðsta ræðustól landsins, til að reyna af veikum mætti að koma til móts við þá sem virkilega þurfa á Alþingi Íslendinga og þessu ráðherraræði að halda. Hvað er gert við öll málin okkar? Hvað er gert við lágmarksframfærslu?
Skal útrýma fátækt á Íslandi
Hvað er gert til að koma til móts við það að hætta að skattleggja fátækt fólk? Ekki neitt. Því er öllu sópað í ruslið. Ég get aðeins sagt það, kæru landsmenn: Þið eigið eina von, þið eigið eina hugsjón og hún er í Flokki fólksins. Fjórflokkurinn og aðrir þeir sem þegar hafa fengið að reyna sig og sýna hvar raunverulegur vilji þeirra er til að taka utan um samfélagið í heild sinni — við vitum öll hvernig það hefur gengið í þessu árferði sem búum við í dag, í þessari vaxandi fátækt. Þetta er ekki að gerast á einum degi, svo mikið er alveg víst.
Við í Flokki fólksins segjum: Fólkið fyrst og svo allt hitt. Ég get líka svarið og sárt við lagt eins og hv. þm. Kristrún Frostadóttir hér á undan, ég sver og lofa því að með ykkar umboði þá skal ég útrýma fátækt á Íslandi,“ sagði hún ennfremur.