„Á föstudagskvöldi slátruðu ríkisstjórnarflokkarnir samgönguáætlun,“ skrifar segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, á Facebook í kvöld, en ágreiningur innan ríkisstjórnarflokkanna um forgangsröðun framkvæmda varð til þess að ekki reyndist unnt að afgreiða málið út úr nefnd til lokaafgreiðslu þingsins.
„Það var eitt stærsta mál þessa þings, sem við höfðum unnið að síðan í október. Þar með dó enn eitt málið fyrir þann málstað að ráðherrastólarnir brotni ekki.
Rifrildið um forgangsröðun samgönguframkvæmda varð svo mikið að niðurstaða formanna flokkanna varð sú að gera bara ekkert. Bíða eitt ár til. Þetta eru auðvitað ekkert sérstaklega góðar fréttir fyrir fólkið í landinu en fólk sem beið eftir samgöngubótum getur kannski glatt sig við að ríkisstjórnin hefur þá fækkað tilefnum fyrir rifrildi um eitt,“ bætir Þorbjörg við.

Hún er varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar sem hefur haft samgönguáætlun til meðferðar um langt skeið. Fundur var fyrirhugaður í nefndinni í gær, en var svo frestað og til stóð að funda aftur í hádeginu í dag. Þeim fundi var frestað með nokkurra mínútna fyrirvara og minnihlutanum tilkynnt einhliða um það. Engin svör fengust við tölvupósti með spurningum um frekari fundi, en fundur fór svo fram kl. 18.30 á föstudagskvöldi, þar sem samgönguáætlun var endanlega blásin af.
Framsóknarmenn ósáttir
„Ég vissi ekki einu sinni af þeim fundi fyrr en eftir á,“ segir Þorbjörg í samtali við Viljann nú í kvöld, en til fundarins var boðað með skömmum fyrirvara og virðist fundarboðið ekki hafa náð til allra nefndarmanna.
Samkvæmt heimildum Viljans, lögðu framsóknarmenn þunga áherslu á að samgönguáætlunin yrði afgreidd á þessu þingi, þar sem það var formaður flokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi innviðaráðherra og nú fjármálaráðherra, sem lagði hana fram. Nýr innviðaráðherra Svandís Svavarsdóttir mun hins vegar, eftir niðurstöðu kvöldsins, leggja fram sína samgönguáætlun næsta haust.