Stjórnarsamstarf í andaslitrunum: Þingmaður VG lætur sjálfstæðismenn heyra það

Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstri grænna.

„Það er orðið ansi þreytandi að geta varla kveikt á útvarpinu eða opnað internetið án þess að þar sé skoðun eða greinarstúfur frá þeim Óla Birni Kárasyni eða Jóni Gunnarssyni. Þeir hafa yfirleitt allt á hornum sér, að bugast yfir stjórnarsamstarfi þar sem þeir fá ekki að skína. Öll brothætta karlmennskan birtist okkur í hástemmdum yfirlýsingum um hvað við í VG séum nú ómöguleg, ókurteis og óferjandi,“ skrifar Jódís Skúladóttir, þingkona VG, í færslu á fésbókinni nú í morgun.

„Öll góðu málin, eins og bús í búðir, forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu (lesist: eftirlit með fólki sem ekki er grunað um brot), stjórnlaust hobby-skutl á hvölum og fleira í þeim dúr, komast bara hvorki lönd né strönd. Og ef þau komast eitthvað, þá eru þau alls ekki eins og þeir vilja hafa þau.

Það var og.

Það ætti að vera öllum ljóst að VG er ekki eini flokkurinn sem er í krísu. Sjálfstæðisflokkurinn virðist berjast um á hæl og hnakka, fyrst og fremst innbyrðis. Nútíminn hefur brugðist þeim þar sem fólk hefur allan aðgang að upplýsingum og er fært um að draga sínar eigin ályktanir í pólitískri umræðu.

Þessir ágætu kollegar mínir tveir eru að sjálfsögðu að tala inn í bakland sem þarfnast hvatningar og áheyrnar á þessum erfiðu tímum hvar VG ræður öllu í ríkisstjórn (hóst).

En sannleikanum er hver sárreiðastur og það er einfaldlega svo að stór hluti sjálfstæðisfólks fylgir ekki þessum gömlu karllægu gildum lengur. Og það hlýtur að vera voða erfitt fyrir þá sem standa og falla með þeim. Úr því spretta öll innanmeinin.

Ég held að það sé hverri stjórnmálahreyfingu hollt að ganga í gegnum innra samtal og komast að niðurstöðu hver raunveruleg stefna er. En það er líka mikilvægt að geta horfst í augu við nútímann og vera fær um að fylgja sjálfsögðum samfélagsbreytingum. Það er VG að gera – en við erum ekki ein um þörfina,“ bætir hún við.