Með yfirlýsingu landsfundar VG um að ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk sé að nálgast leiðarlok og að ganga verði til kosninga með vorinu telur áhrifafólk innan Sjálfstæðisflokksins að Vinstri grænir hafi í reynd slitið samstarfinu. Samkvæmt heimildum Viljans má allt eins búast við því að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra freisti þess á næstu dögum að boða til kosninga, sem yrðu þá í lok nóvember næstkomandi.
Gríðarleg ólga er innan Sjálfstæðisflokksins vegna breyttrar stöðu í ríkisstjórnarsamstarfinu eftir formannsskipti hjá Vinstri grænum. Talað er um forsendubrest vegna yfirlýsinga VG um að ekki sé vilji til þess að aðhafast frekar í orku- og útlendingamálum, þótt stjórnarflokkarnir hafi í vor sérstaklega endurnýjað sín heit, utan um þau áherslumál og ákveðið að halda samstarfinu út kjörtímabilið.
„Vinstri grænum var ekki afhent einhliða neitunarvald í ríkisstjórn. Heimild til þingrofs er heldur ekki í höndum Svandísar þótt hún hafi stigið fram og boðað til kosninga áður en kjörtímabilinu er lokið,“ sagði Óli Björn Kárason, þingmaður og fv. formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins í grein sinni í Morgunblaðinu í gær og talaði þar fyrir munn margra sjálfstæðismanna, sem telja að með framgöngu sinni undanfarna daga hafi Vinstri græn í reynd bundið enda á stjórnarsamstarfið.
Fari svo að boðað verði til kosninga á næstu dögum, er ljóst að ekki mun gefast tími til að halda landsfund Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar, eins og áætlað hafði verið. Bjarni Benediktsson myndi því að líkindum leiða flokk sinn í kosningabaráttu, en skoðanakannanir undanfarið hafa verið flokknum mjög mótdrægar, eins og kunnugt er, sem og hinum stjórnarflokkunum tveimur.
Hvorki Viðreisn né Miðflokkur eru til viðræðu um að ganga til liðs við laskað stjórnarsamstarf við þessar aðstæður í stað VG og Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur tekið slíkum bollaleggingum fjarri sömuleiðis. Einhverjir innan Sjálfstæðisflokksins hafa viljað kanna möguleikana á sérstöku samkomulagi við tvo þingmenn Flokks fólksins um samstarf fram að kosningum á næsta ári, þá Jakob Frímann Magnússon og Tómas Tómasson, en það þykir fremur fjarlægur möguleiki á þessum tímapunkti.