Guðbjörn Guðbjörnsson, yfirtollvörður og formaður Tollvarðafélags Íslands, tekur enga fanga í færslu á fésbókinni í gærkvöldi og setur fram sín stjórnmálaviðhorf svo eftir er tekið:
„Það er alveg ljóst að langlundargeð landsmanna gagnvart þeirri ríkisstjórn sem hér er við völd er á enda og traustið algjörlega þrotið. Þá er tiltrú landsmanna til hins opinbera mikið löskuð, t.a.m. hvað Seðlabanka Íslands varðar en einnig Ríkissáttasemjara, Ríkissaksóknara auk flestra ráðuneyta og þá ekki síst fjármálaráðuneytið en einnig dómsmálaráðuneytið.
Á Alþingi er þingmeirihlutinn sammála um eitt og það er að gera sem allra, allra minnst. Ríkisstjórnarkreppa ríkir og landið er hreinlega stjórnlaust. Yfirgangur og harðstjórn verða æ sýnilegri. Nei, við höfum fengið okkur fullsödd af þessu ástandi og viljum kosningar og það ekki seinna en alveg strax. Lýðræði snýst um að þeir stjórni landinu sem njóta trausts þjóðarinnar en ekki að tryggja völd þeirra 25% sem illu heilli enn styðja ríkisstjórnina eða formann og flokk sem nýtur 13,4% fylgis.
Valdhafarnir bera ábyrgðina
Sú efnahagsstefna sem Sjálfstæðisflokkurinn og fjármálaráðuneytið hafa keyrt hér meira og minna frá hruni og lág- og hávaxtastefna Seðlabankans hafa reynst þjóðinni á endanum hörmulega og verið heimilum og fyrirtækjum dýrkeypt. Hvorki er hægt að kenna almenningi eða atvinnulífinu um hversu illa til hefur tekist, því það eru valdhafar sem bera endanlega ábyrgð. Ríkisstjórnin og SÍ kunna hreinlega ekki til verka, þ.e. kunna hvorki að gróf- eða fínstilla efnahagslífið.
Húsnæðisskortur hefur verið auðsjáanlegur í 5-10 ár, ekkert verið gert og þetta hefur kynt undir verðbólgu í landinu. Endalaus halli hefur verið ríkissjóði, skuldir landsins erlendis sem innanlands hafa aukist mikið og slæm verðbólga leikið almenning illa. Að auki virðast hjól atvinnulífsins vera að hægja mikið á sér; hugsanlega frekar djúp kreppa í aðsigi. Bygging íbúða í landi þar sem húsnæði vantar hefur nánast stöðvast. Vegaframkvæmdir í landi með ónýtar samgöngur hafa nánast stöðvast. Ekki hefur verið virkjað í landi fullu af orku í 10 ár og þar er lítið sem ekkert í farvatninu. Landsmálin alstaðar í algjöru ójafnvægi.
Ferðaþjónustan berst í bökkum vegna dýrtíðar og hárra vaxta, sem hefur enn aukið á launaþrýsting, sem síðan þýðir víxlverkun launa og verðlags. Ekki er nægileg orka til staðar í landi þar sem slíkt ætti ekki að vera vandamál. Uppbygging fiskeldis gengur hægt. Stórfyrirtæki á borð við Skaginn 3x farið á hausinn. Lítið af góðum fréttum hvað nýsköpun varðar. Vegir víðast stórhættulegir. Innviðir landsins, t.a.m. samgöngukerfið úti á landi og í borginni er að hruni komið og landsmenn sitja í umferðateppu 1-2 klst. á dag. Menntun barnanna í lamasessi og þau hvorki læs né skrifandi eða hamingjusöm. Þegar æskan er í húfi þýðir ekki að gera málamiðlun og því þarf að bregðast við.
Hundrað prósent ábyrgð Sjálfstæðisflokksins
Þá má ekki gleyma útlendingamálunum, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn ber 100% ábyrgð á því skuggalega ástandi sem ríkir, sem er sennilega með því versta sem gerist innan Evrópu. Það sama má segja um ástandið þegar kemur að öryggi okkar innanlands, þar sem hvert morðið á fætur öðru á sér stað. Það eina sem virkilega blómstrar hér á landi er skipulögð glæpastarfsemi og ofbeldi. Viljum við búa í slíku þjóðfélagi óöryggis, illvirkja og hrottaskapar? Eigum við sem bjuggum í friðsömu ríki fyrir nokkrum árum ekki eitthvað betra skilið en það sem dómsmálaráðuneytið hefur boðið okkur upp á í a.m.k. 10 ár? Jú, við eigum auðvitað skilið almennilega stjórn efnahagsmála og að öryggi okkar og barnanna okkar sé tryggt.
Vanhæf ríkisstjórn
Þegar ég ræði við fólk úti í bæ er ljóst að sigurvegari næstu kosninga verður auðvitað Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Miðflokkurinn, um það er virkilega engum blöðum að fletta. Og þeir flokkar sem munu tapa stórt eru Sjálfstæðisflokkurinn, VG og Framsóknarflokkurinn og þeir eiga þessa útreið mikið meira en skilið. Samfylkingin er eini flokkurinn á vinstri vængnum sem nýtur trausts. Miðjuflokkar njóta alls ekki fylgis og skautunin hér að verða áberandi líkt og við höfum séð um heim allan. Ég verð að segja að ég hef ákveðinn skilning á þessu, því fólk vill breytingar og það frekar í gær en í dag. Réttara væri að segja að almenningur og atvinnulífið krefjist breytinga.
Hafi frasinn ‘Vanhæf ríkisstjórn!’ einhvern tíma átt við þá er það núna. Burt með þessa bévaða ríkisstjórn sem allra, allra fyrst, því það er landhreinsun að því að koma ykkur fyrir kattarnef og á hina pólítísku ruslahauga sögunnar. Þið eruð launafólki landsins stórhættuleg og atvinnulífinu einnig. Það þarf að koma böndum á óstjórnlegt útgjaldafyllerí þessarar ríkisstjórnar og reyna um leið að bjarga innviðum landsins, koma hér aftur á öruggum landamærum og skapa almennt meiri frið, því annars er lýðræðið í hættu. Ágæta ríkisstjórn, þið ráðið hreint út sagt alls ekki við það hlutverk sem þið tókuð að ykkur fyrir 7 árum síðan. Takið pokann ykkar, þið eruð rekin!“