Stórsagnahöfundurinn Einar Kárason fór í bíó á íslensku kvikmyndina Ljósvíkingar og deilir upplifun sinni með sínum hætti, sem eftirtektarvert er:
„Fór áðan að sjá kvikmyndina Ljósvíkingar. Hún er frábær, ein besta nýja íslenska bíómyndin sem ég hef séð árum saman. Allir leikarar léku af innlifun og snilld, og þar á meðal Ísafjörður.
Snævar leikstjóra og handritshöfund hitti ég fyrst fyrir svona áratug þegar ég kenndi lítinn kúrs í Kvikmyndaskólanum. Þaðan kemur hann, og hefur í viðtölum talað mjög fallega um námið þar. Sömuleiðis kemur eflaust úr þeirri deiglu megnið af frábæru tæknifólki myndarinnar.
Sem segir að við verðum að fara að taka þennan skóla meira alvarlega. Pólitíkusar hafa verið hikandi við að styðja hann, og vitað er að Listaháskólinn hefur lengi haft horn í síðu Kvikmyndaskólans, og forystufólk þaðan á ýmsan hátt reynt gegnum árin að leggja steina í hans götu. Er ekki nóg komið af slíku?
Allir í bíó að sjá Ljósvíkinga eftir Snævar Sölva.“