Þorbjörg ætlar sér oddvitasætið hjá Viðreisn

Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, tilkynnti í kvöld að hún ætli sér 1. sætið í sameiginlegu prófkjöri Reykjavíkurkjördæmanna hjá Viðreisn fyrir komandi alþingiskosningar. Líklegt er að prófkjörið verði í byrjun nýs árs, en þetta verður í fyrsta sinn sem farin er þessi leið innan flokksins í Reykjavík við val á framboðslista fyrir alþingiskosningar.

Áður hefur Jón Gnarr, fv. borgarstjóri, lýst því yfir að hann ætli að taka þátt í prófkjörinu og stefna á oddvitasætið. Það er því útlit fyrir spennandi prófkjörsbaráttu á næstunni innan flokksins.

Þorbjörg var gestur Björns Inga Hrafnsson, ritstjóra Viljans, í Grjótkastinu ásamt Ólöfu Skaftadóttur í kvöld og þar lýsti hún framboði sínu yfir. Í þættinum er rædd staða ríkisstjórnarinnar eftir landsfund VG, forystumál Sjálfstæðisflokksins, sókn Miðflokks og Samfylkingarinnar og staða Framsóknar.

Stóra verkefnið innan Viðreisnar er að koma flokknum í næstu ríkisstjórn eftir kosningar, að sögn Þorbjargar og telur hún að prófkjörið geti orðið kjörinn vettvangur til að velja þann sem sé líklegastur til að geta komið Viðreisn í þá stöðu.