VG segir hægri öflin ýta undir útlendingaandúð í samfélaginu

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 ályktar að ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk sé að nálgast leiðarlok og að æskilegt sé að boða til kosninga með vorinu, að því er segir í áyktun sem nú hefur verið birt opinberlega.

„Ríkisstjórnin var upphaflega mynduð árið 2017 í kjölfar óvæntra kosninga og í skugga pólitísks óróa. Þannig komst á festa í stjórnmálum undir forystu Vinstri grænna og hefur hreyfingin náð fram afar mikilvægum málum. Má þar nefna nýja þungunarrofslöggjöf, endurskoðun örorkulífeyriskerfisins, efling heilsugæslu, bætta réttarstöðu brotaþola kynferðisofbeldis, lög um kynrænt sjálfræði, gjaldfrjálsar skólamáltíðir, hömlur á jarðasöfnun, lengingu fæðingarorlofs, friðlýsingar á náttúruperlum og þrepaskipt skattkerfi. Undir forystu Vinstri grænna var einnig brugðist við COVID-faraldrinum af ábyrgð, sem reyndist mikið gæfuspor fyrir þjóðina. 

Brýn verkefni eru fram undan. Ástand efnahagsmála og þrálát verðbóga kallar á víðtækar aðgerðir. Stýrivextir hafa nánast staðið í stað í rúmt ár og lagt ómældar byrðar á bæði almenning og fyrirtæki. Þetta veldur gríðarlegri hækkun húsnæðiskostnaðar hjá leigjendum, húsnæðislántakendum og smærri fyrirtækjum. Samhliða tekur almenningur á sig hækkanir á nauðsynjavöru og gjaldskrám og jafnframt raforkuverðshækkun sem er umfram verðbólgu. Þetta ástand ógnar lífsviðurværi fjölda fjölskyldna og eykur á fátækt, ójöfnuð og fjárhagslegt óöryggi. Meðan venjulegt fólk glímir við efnahagserfiðleika sækja gróðaöflin í sig veðrið og ásælast náttúruauðlindir og almannagæði. 

Hægri öflin í samfélaginu leita helst lausna sem þjóna hagsmunum fjármagnsaflanna, umfram almannahagsmuni. Þar má nefna einkavæðingu og niðurskurðarstefnu og aðrar aðgerðir sem fela í sér að færa almannagæði frá almenningi og gera þau að féþúfu fyrir einkaaðila. Samhliða ýta hægri öflin undir útlendingaandúð í samfélaginu og halda uppi áróðri gegn fólki sem flýr stríð. Allt gengur þetta gegn stefnu Vinstri grænna. 

Til að hægt sé að halda ríkisstjórnarsamstarfinu áfram telur landsfundurinn að takast verði á við þau knýjandi verkefni sem við blasa á félagslegum grunni. Jafnframt telur fundurinn að ganga verði til kosninga með vorinu. 

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs áréttar stefnu hreyfingarinnar og býður upp á framtíðarsýn fyrir Ísland þar sem fólk er sett í fyrsta sæti og fjármagnsöflin látin mæta afgangi. Hvort sem Vinstri græn verða innan eða utan ríkisstjórnar eftir næstu kosningar mun hreyfingin hafna einkavæðingu og útlendingaandúð og vinna að mannréttindum, kvenfrelsi og félagslegu réttlæti. Hreyfingin telur nauðsynlegt að náttúran eigi öflugan málsvara í stjórnmálum og mun rísa undir þeirri ábyrgð. Þá munu Vinstri græn beita sér af alefli í friðarmálum og ekki við una fyrr en íbúar Palestínu geta um frjálst höfuð strokið,“ segir þar ennfremur.