
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist á fjölmennum fundi sjálfstæðisfólks í Garðabæ í morgun, vilja að Vinstri græn endurskoði nú þegar afstöðu sína í útlendingamálum og virði samkomulag stjórnarflokkanna í þeim efnum. Geri þeir það ekki, sé ekki annað í stöðunni en horfast í augu við að ríkisstjórnarsamstarfinu sé lokið og boða verði til kosninga.
Allt hefur logað stafna á milli í stjórnarsamstarfinu undanfarna daga, ekki síst eftir landsfund VG um síðustu helgi. Þar kom skýrt fram af hálfu flokks og nýs formanns, Svandísar Svavarsdóttur innviðaráðherra, að VG vilji ekki ganga lengra í útlendingamálum en þegar hafi verið gert. Það telja sjálfstæðismenn þvert á samkomulag flokkanna, auk þess sem algjörlega fáheyrt sé að stjórnarflokkur lýsi þannig beinni andstöðu við boðuð frumvörp á málaskrá ráðherra annars stjórnarflokks.
Á Bjarna var að skilja, að ekki sé nægilegt að leiða fram raunverulegan vilja VG í meðferð þingsins á útlendingafrumvörpunum í vetur. Og þung orð hafi fallið um efnisatriði máls hjá VG. Þau verði að draga til baka.
Eins og Viljinn greindi frá sl. fimmtudagskvöld, eru vaxandi líkur á alþingiskosningum á aðventunni, enda stál í stál millum stjórnarflokkanna í mörgum veigamiklum málum. Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármálaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, blandaði sér í deilurnar í dag og krafðist þess að innan fárra daga komist á hreint hvort samstarfið er á vetur setjandi:
„Fjölmiðar hafa mikið sóst eftir viðtölum í dag. Ég hef ekki svarað spurningum þar sem ég get ekki og vil ekki geta í hvað gerist á einstökum fundum samstarfsflokkanna. Það verður að spyrja forystufólk þeirra flokka um þeirra mál. Það er hins vegar deginum ljósara að það er ákaflega brýnt að það skapist vinnufriður í ríkisstjórn. Ef hinir stjórnarflokkarnir treysta sér ekki til að standa við og vinna að stjórnarsáttmálanum verður það að koma fram á allra næstu sólarhringum,“ segir hann.