Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun spurði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, Ásmund Einar Daðason barna- og menntamálaráðherra út í sláandi niðurstöðu PISA-könnunarinnar. Velti þingmaðurinn því upp hvort eðlilegt væri að aðalnámskrá sem leggur grunn að öllu skólastarfi landsins sé eingöngu á forræði menntamálaráðherra en Alþingi hafi ekkert um þessa skólastefnu að segja.
„Þessi staða ætti að halda fyrir okkur vöku. Við ættum ekki að geta sofið yfir þessari stöðu.“ Þetta eru orð konu með reynslu úr skólastarfi og hún var að tala um niðurstöður PISA. Kennari lýsti því fyrir mér að hann upplifir algjöra endurtekningu fyrirsagna, þær sömu og á árinu 2015 og aftur 2018. Árið 2023 mega viðbrögðin þess vegna ekki verða eins og áður flóðbylgja, frétta og tilfinninga í nokkra daga og svo gerist ekkert.
Við vitum að við eigum frábæra kennara og frábæra krakka. Og hvað er það þá sem veldur? Hvað þýða þessar niðurstöður?
Samanborið við jafnaldra á Norðurlöndum og ríkjum OECD eru margir nemendur á Íslandi sem skora lágt í lesskilningi. 40% hafa ekki ná grunnfærni í lesskilningi. Frammistaðan hér dalar meira en á Norðurlöndum. Við lækkun um 14%, en talan er 3-8% á hinum Norðurlöndunum.
Menntamálastofnun nefnir líka að þeim börnum fækkar sem sýna afburða árangur. Þau eru líka hlutfallslega fá miðað við samanburðarlönd. Staðan á Íslandi er sem sagt þessi: Þeim börnum fjölgar sem ekki ná grunnfærni og þeim fækkar sem sýna afburða árangur. Þetta er mikið áhyggjuefni.
Aðalnámskrá birtir menntastefnu stjórnvalda, námsframboð og námskröfur. Hún á að tryggja börnum góðar aðstæður til náms markar starfsramma stjórnenda og kennara við skipulagningu skólastarfs er grundvöllur mats á skólastarfi og námsmats í skólum. E forsenda þess að menntamálaráðherra geti sinnt eftirlitshlutverki sínu. Aðalnámskrá er samningur þjóðarinnar við sjálfa sig um menntamál. Það er ráðherra setur hana, ráðherra getur breytt henni.
Mín spurning er: Er eðlilegt að aðalnámskrá sé eingöngu á borð við ráðherra? Er eðlilegt að grundvallarákvarðanir í menntamálum þjóðarinnar í gegnum aðalnámskrá séu hjá ráðherra og að Alþingi hafi þetta lítið um menntastefnu þjóðarinnar að segja?“
Ásmundur Einar svaraði því til að spurningin kæmi að námskránni, kjarnanum sem væri grunnurinn að menntakerfinu okkar
„Hvað er í henni, hvernig hún er uppbyggð og hvað leggjum við áherslu á að aðalnámskráin er. Eitt er aðalnámskráin. Síðan er það hvernig við framfylgjum henni og aðstoðum við að koma henni í framkvæmd.
Ég er almennt þeirrar skoðunar að þegar kemur að menntamálum að þá eigi sem flestir að koma að borðinu um mótun þeirra mála. Eins og hv. þingmaður nefnir þá er það svo að þetta er grundvöllur alls í íslensku samfélagi. Það er hvernig við undirbúum börnin í gegnum menntakerfið fyrir framtíðina.
Nú er í gangi endurskoðun aðalnámskrár sem er í vinnslu. Þetta er eitt af því sem við viljum ræða á næstunni í framhaldi af PISA vegna þess að ég er sammála hv. þingmanni með það að við eigum ekki að láta þessar niðurstöður sofna. Við eigum að eiga samtal um það með hvaða hætti við þurfum að bregðast við. Þar þurfa allar raddir að heyrast en ekki eingöngu rödd ráðherrans eða ráðuneytisins. Þess vegna þegar niðurstöður PISA voru kynntar núna áttum við samtal við m.a. Samband íslenskra sveitarfélaga, háskólanna, Kennarasambandið, heimili og skóla helstu hagaðila þegar kemur að menntamálum. Ég mundi vilja sjá pólitíkin á Alþingi koma inn í það samtal líka og mun tryggja það vegna þess að við viljum bregðast við og við viljum fá raddir inn raddir ólíkra aðila inn í næstu skref og aðalnámskráin er eitt af því sem undir er í samtali næstu mánuði en líka að rýna þá vegferð sem við erum nú á.
Erum við á réttri leið? Aðgerðirnar sem við höfum verið að samþykkja, m.a. hér í þinginu, eru þær skynsamar? Ég er þeirrar skoðunar að svo sé en ég yrði fyrstur til að bregða út af ef það er samþykkt, ef það er sameiginleg niðurstaða sem flestra hagaðila að við þurfum að gera eitthvað með öðrum hætti vegna þess að menntakerfi er verkefni okkar allra og við eigum öll að koma að því. Við eigum öll að hafa rödd,“ svaraði ráðherrann.