Ásmundur Einar: Einlæg von mín að þessum fjölskylduharmleik ljúki sem fyrst

Ásmundur Einar Daðason undirritaði breytingar á reglugerð um lánaflokka Íbúðalánasjóðs á Drangsnesi í Steingrímsfirði í morgun.

„Þær sorglegu fjölskyldudeilur sem verið hafa í opinberri umræðu á síðustu dögum vegna erfðadeilu innan systkinahóps föður míns eftir fráfall afa míns árið 2007 eru mér með öllu óviðkomandi og hafa verið um langt árabil,“ segir Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra í yfirlýsingu sem hann hefur sent til fjölmiðla.

Frænkur ráðherrans hafa borið sakir á hann í hlaðvarpi og skorað á hann að mæta sér á opinberum vettvangi til að ræða málin. Hann hefur ekki brugðist við, fyrr en í dag:

„Ég tók í upphafi deilnanna einarða afstöðu með föður mínum. Engu að síður er langt síðan mér var það ljóst að nærvera mín í þessum ágreiningi gerði hvorki mér, fjölskyldu minni, né öðrum nokkurt gagn. Þess vegna steig ég út úr þessum átökum í eitt skipti fyrir öll fyrir mörgum árum síðan og mun ekki tjá mig um málið á öðrum vettvangi en þeim sem þar til bærir opinberir aðilar kunna mögulega að leita eftir. Ég á mér fyrst og fremst þá einlægu von að þessum fjölskylduharmleik ljúki sem allra fyrst,“ segir Ásmundur Einar í yfirlýsingunni.

„Enda þótt reynt sé að bendla mig við þetta mál, væntanlega til þess að beina að því sterkara kastljósi en ella, mun ég ekki glæða þá elda sem nú er reynt að kveikja með útskýringum né heldur með því að bera af mér endurteknar rangar sakargiftir. Ég vek athygli á þeirri einföldu staðreynd að ég hef aldrei verið ákærður fyrir ólögmætt athæfi vegna þessara deilna né heldur yfirheyrður vegna einhverra málsatvika,“ bætir hann við.