Allt er í háaloft á Ríkisútvarpinu eftir að fréttakonunni Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur var óvænt vikið úr rannsóknarteymi fréttaskýringaþáttarins Kveiks er hún var í þann mund að fjalla um umdeilda samninga borgaryfirvalda við olíufélögin um lóðaréttindi upp á milljarða króna.
Málið er hið vandræðalegasta fyrir Ríkisútvarpið, enda er útvarpsstjórinn Stefán Eiríksson fyrrverandi borgarritari og sviðsstjóri velferðarsviðs og sem slíkur einn nánasti samstarfsmaður borgarstjórans. Undirmenn útvarpsstjórans á fréttastofunni virðast hafa fyrirskipað að stöðva birtingu fréttaskýringar um umrædda samninga og bera fyrir sig tæknilegum atriðum sem fréttamaðurinn sjálfur gefur ekkert fyrir.
„Ég skilaði fyrsta uppkasti að handriti að Kveiksþætti mínum til ritstjóra og pródúsents kl. 21.42 fimmtudagskvöldið 11. apríl, 12 dögum fyrir áætlaða sýningu innslagsins. Þá stóð til að klippa efnið og leggja það á tímalínu til frekari vinnslu. Um hádegi á sunnudag 14. apríl spyr ég hvernig gangi. Þá fékk ég þau svör frá ritstjóra þáttarins að hann hefði tekið fyrstu „klippuna” og sýnt hana fréttastjóra og ritstjóra fréttatengdra þátta. Þeim var sumsé sýnt efnið áður en ég hafði séð það sjálf og án minnar vitundar og samþykkis. Slík vinnubrögð eru framandi fyrir mér. Þetta þótti mér miður. Mat fréttastjóra og ritstjóra Kveiks var að ekki næðist að fullvinna efnið í tæka tíð og ef ég sæi það ekki sjálf ætti ég ekki erindi í rannsóknarblaðamennsku,“ segir María Sigrún á fésbókinni í dag og greinilegt að hún hefur ekki sagt sitt síðasta í þessum efnum.
Baksvið málsins er að fyrir nokkrum árum lagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fram samninga sem hann hafði handsalað við olíufélögin um að afhenda þeim endurgjaldslaust lóðir þar sem bensínstöðvar voru starfræktar um árabil. Heildarflatarmál þessara lóða eru rúmir 6,5 hektarar, en nánar tiltekið voru þetta Álfheimar 49, Álfabakki 7, Egilsgata 5, Ægisíða 102, Hringbraut 12, Stóragerði 40, Skógarsel 10, Elliðabraut 2, Rofabær 39, Birkimelur 1, Skógarhlíð 16 og Suðurfell 4.
Með þessu var orðið heimilt að breyta gamalgrónum bensínstöðvarlóðum í dýrmæta þéttingarreiti þar sem stendur nú til að byggja mikið magn íbúða, mörgum nágrönnum til lítillar gleði.
Á sínum tíma skrifaði Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins svo um þetta samkomulag:
„Hér er um fullkominn gjafagjörning að ræða. Borgarstjóri er að gefa frá Reykjavíkurborg allan byggingarétt á lóðunum sem á heima inni í eignarsjóði og síðar borgarsjóði. Samningarnir eru tvíþættir. Í fyrsta fasa er um að ræða 12 lóðir sem olíufélögin Olís, N1 og Skeljungur ásamt Högum, Festi og Krónunni fá endurgjaldslaust. Þessi félög ásamt Dælunni og Atlantsolíu hafa jafnframt gert framtíðarsamninga um sama efni þegar hin svokallaða borgarlína fer að taka á sig mynd því gjafagjörningurinn nær til þeirra bensínstöðva sem að henni liggja. Þar felast gríðarlega dulin framtíðarverðmæti sem ógerningur er að verðmeta nú.
Komið hefur fram að virði byggingaréttar á lóðinni á Ægisíðu 102 er 2 milljarðar. Sú lóð er 0,6 hektarar og er því um 10% af þeim lóðum sem borgarstjóri er að gefa nú. Því má áætla að heildarvirði byggingaréttar á lóðunum tólf losi um 20 milljarða. Þá eru framtíðarsamningarnir ótaldir sem eiga eftir að hlaupa á tugum milljarða. Ég tel að svona samningar séu ólöglegir því ekki er hægt að mynda eignar- eða hefðarétt á leigulóð. Enda vitnar Hæstaréttardómur nr. 240/2003, Skeljungur hf. gegn Sveitarfélaginu Hornafirði vitni um það. Í dómsorði kemur fram: „S hf. leigði lóð af sveitarfélaginu H til tuttugu ára. Að loknum leigutíma var lóðin leigð hlutafélaginu áfram til fimm ára. Að þeim tíma liðnum náðist ekki samkomulag um áframhaldandi leigurétt S hf. á lóðinni. Var sveitarfélaginu heimilað að fá S hf. borið út af lóðinni með bensínstöðvar- og veitingahús sitt og öllu, sem því tilheyrði, þar með töldum olíu- og bensíntönkum í jörðu.“
Ekki undir neinum kringumstæðum getur sveitarfélag gefið frá sér eigur sínar, land eða auðlindir. Það er ekki borgarstjórans í Reykjavík að taka þátt í að umbreyta olíufélögunum í fjárfestinga- og/eða fasteignafélög þegar stefna stjórnvalda er orkuskipti í samgöngum,“ sagði Vigdís ennfremur.
Á þessari stundu liggur ekki nánar fyrir hvers vegna yfirstjórn RÚV var svona mikið í mun að stöðva umrædda fréttaskýringu, að yfirmenn fréttastofunnar fengu sjálfir að skoða drög að henni áður en fréttamaðurinn sjálfur fékk það. En í ljósi tengsla útvarpsstjórans við borgarkerfið og þess að nýr borgarstjóri kom beint af fréttastofunni lítur málið alls ekki vel út.
Hér virðist fiskur falinn undir steini og gæti áður en langt um líður orðið að sannkölluðum stórlaxi.
Ef í landinu væri starfandi alvöru blaðamannafélag, myndi líklega heyrast hresslega frá því af minna tilefni.